Friedrich Engels
Friedrich Engels (28. nóvember 1820 - 5. ágúst 1895) var þýskur iðnrekandi, hagfræðingur, heimspekingur og byltingarsinnaður sósíalisti. Hann er þekktastur sem nánasti samstarfsmaður Karl Marx, en hann ásamt Marx er hann álitinn faðir Marxismans.
Ævi
breytaEngels fæddist í Barmen, sem þá iðnvæddasta borgin í Þýskalandi í efnaða fjölskyldu. Engels ólst upp við strangt kalvínískt uppeldi. Faðir hans átti verksmiðjur í Barmen og Manchester þar sem Engels starfaði lengi og fékk þar snemma innsýn í eðli kapítalísks markaðshagkerfis. Engels heillaðist snemma af bókmenntum og út frá því komu upp róttæku hugmyndir hans.[1]
Náið samband myndaðist á milli Engels og Karl Marx árið 1844 og höfðu þeir mikil áhrif á hugmyndir hvors annars. Engels skrifaði nokkur verk með Marx, ásamt því að ritstýra fjölda verka hans. Engels studdi Marx sömu leiðis fjárhagslega, meðan sá síðarnefndi vann að rannsóknum sínum og skrifum. Þrátt fyrir líkar hugmyndir og sjónarmið í fræðum þá voru þeir ólíkir karakterar að mörgu leyti. Robert Heilbronner, hefur lýst því svo að meðan Marx kafaði djúpt í greiningu sinni á lögmála kapítalismans, hafi Engels lagt áherslu á breiddina og víðari sýn í fræðum sínum. Framlög Engels til Marxismans fólust ekki síst í því að fylla í eyður í greiningu Marx, og víkka hana út með því að takast á við fjölbreytilegri félagslegar og efnahagslegar spurningar[1]
Helstu verk
breytaMeð frægustu verkum sem Marx og Engels sömdu í sameiningu er Kommúnistaávarpið, (1848) þar sem þeir gagnrýndu hugmyndir Kapitalismans. Engels ritstýrði ýmsum öðrum verkum Marx, þar á meðal tveimur af þremur bindum Auðmagnsins eftir lát Marx.[2] Auk þess gaf Engels út fjölda rita og ritgerða.
Meðal mikilvægustu rita Engels eru The Condition of the Working Class in England, sem kom út á þýsku 1844, og ensku 1887, Þróun jafnaðarstefnunnar: draumsýn verður að vísindum sem kom út á frönsku 1880, og í íslenskri þýðingu Jafnaðarmannafélags Akureyrar árið 1928, og Uppruni fjölskyldunnar, einkaeignarinnar og ríkisins (e The Origin of the Family, Private Property and the State) sem kom út á ensku 1884 og í íslenskri þýðingu þýðingu Ásgeirs Blöndals Magnússonar árið 1951.
Die Lage der arbeitenden Klasse in England
breytaEngels gaf út Die Lage der arbeitenden Klasse in England (e. The Condition of the Working Class in England) árið 1844. Ritið fjallar um kjör verkalýðsins í Bretlandi en Engels kynntist bágstöddum lifnaðarháttum hans á árunum sem hann starfaði í verksmiðju föður síns. Ritið er eitt af þekktustu og mest lesnu ritum Engels, og þykir ein af mikilvægari fræðilegu samtímagreiningum á aðstæðum verkalýðsins á tímum iðnbyltingarinnar. Í skrifum sínum kemst hann að þeirri niðurstöðu að iðnbyltingin hafi rýrt lífskjör verkalýðsins og skapað bæði efnahagslega og félagslega neyð fyrir alþýðu fólks. Úrbætur væru óhugsandi innan hins kapítalíska kerfis og aðeins róttæk félagsleg og efnahagsleg bylting gæti bætt kjör stéttarinnar.
Ritið var upphaflega gefið út í Þýskalandi og vakti þar mikla athygli en hafði þó lítil áhrif á háttsemi þýskra iðnjöfra og kapítalista. Árið 1887 var ritið þýtt yfir á ensku og kom þá út í Bandaríkjunum og fimm árum seinna í Bretlandi. Ritið hafði mikil áhrif á marxíska hagfræðinga og sósíalista, sérstaklega á 20. öld.[2]
Socialisme utopique et Socialisme scientifique
breytaSocialisme utopique et Socialisme scientifique (e.Socialism: Utopian and Scientific) er ritgerð sem Engels gaf fyrst út árið 1880, þá á frönsku.[3] Ritið innihélt ekki nýjar hugmyndir heldur var það úrdráttur og þrír kaflar úr Anti-Düring sem kom út 1878. Í ritinu tók hann saman lykilhugmyndir sínar og setti þær fram á hnitmiðaðan hátt. Enn þann dag í dag er ritið eitt af vinsælustu samantektum um marxískra hugmynda sem gefin hafa verið út.[4]
Engels byrjar að fjalla um þróun sósíalískrar hugsunar. Fyrsti kaflinn er tileinkaður útópískum sósíalistum frá seinni hluta 18.aldar og byrjun 19.aldar, forverum þeirra Marx og Engels.[4] Talar hann um hina þrjá miklu útópíumenn þá Saint-Simon, Fourier og Owen.[3]
Annar kaflinn fjallar um sögu heimspekinnar, allt frá Forngrikkjum og hvernig hún náði hámarki með Hegel.[3] Hann endar kaflann á því að tala um Marx. Hann útskýrir stuttlega kapítalíska nýtingu og hvað Marx gerði fyrir sósíalisma með því að breyta honum í vísindi.[5]
Þriðji og síðasti kaflinn fjallar um sögulega efnishyggju og beitingu marxískrar hugsunar á þróun samfélags, sem var uppspretta byltingarkenndra niðurstaðna Marx og Engels.[4]
Der Ursprung der Familie, des Privateigenthums und des Staats
breytaEftir Engels liggur einnig ritið Der Ursprung der Familie, des Privateigenthums und des Staats (e. The Origin of the Family, Private Property and the State: in the Light of the Researches of Lewis H. Morgan). Ritið, sem kom út árið 1884 og er eitt fyrsta bitastæða verk sem gefið hefur verið út á sviði fjölskyldu hagfræði, byggir að sumu leyti á athugasemdum Karl Marx um bók Lewis H. Morgan, Ancient Society. Rit Engels fjallar um sögu mannsins, tilkomu stéttaskipts þjóðfélags, fjölskylduna og kvenmenn en einnig um ríkið og hvernig það muni að lokum leysast upp og skilja eftir sig stéttlaust samfélag. Megin tilgangur ritsins var að skýra hvernig fjölskyldan sem eining varð til og hvernig kúgun kvenna kemur til sögunnar samhliða henni. Engels fer yfir sögu mannkynsins og skiptir henni upp í þrjú tímabil. Út frá þessum þremur tímabilum lýsir hann þróun fjölskyldunnar og setur fram fjórar helstu gerðir fjölskyldna í gegnum tíðina.[6]
Engels telur að með samfélagsbreytingum breytist einnig hugmyndir fólks um fjölskylduna. Þannig hafi ójöfnuður aukist þegar stéttaskipting kom til sögunnar og karlmenn tóku við völdum. Um leið hafi hjónabandið og fjölskylduformið orðið leið til þess að varðveita eignarrétt og láta eignir erfast kynslóða á milli. Í þessu samfélagi varð krafan um aukna framleiðslu og hagnað sífellt meiri sem leiddi til þess að konur þurftu að eignast fleiri börn til þess að auka vinnuaflið og þannig urðu konur sífellt meira bundnar heimilinu og störfum innan þess.[7]
Heimildir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1919-, Heilbroner, Robert L. (1969). The worldly philosophers : the great economic thinkers. Allen Lane, Penguin. OCLC 48315357.
- ↑ 2,0 2,1 Engels, Friedrich (1993). The condition of the working class in England. David McLellan. Oxford [England]: Oxford University Press. ISBN 0-19-282955-6. OCLC 25964893.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 „Socialism: Utopian and Scientific“, Wikipedia (enska), 24. febrúar 2021, sótt 16. september 2021
- ↑ 4,0 4,1 4,2 Appeal, Socialist. „Socialism: Utopian and Scientific - a reading guide“. Socialist Appeal (bresk enska). Afrit af upprunalegu geymt þann 16. september 2021. Sótt 16. september 2021.
- ↑ „Socialism: Utopian and Scientific (Chpt. 2)“. www.marxists.org. Sótt 16. september 2021.
- ↑ „Origin of the Family, Private Property and the State“. SocialistWorker.org (enska). Sótt 16. september 2021.
- ↑ „Origin of the Family, Private Property and the State“. SocialistWorker.org (enska). Sótt 16. september 2021.