George Washington
George Washington (22. febrúar 1732 – 14. desember 1799) var hershöfðingi í Meginlandshernum sem sigraði Breta í bandaríska frelsisstríðinu og var síðar kjörinn fyrsti forseti Bandaríkjanna. Hann sat tvö fjögurra ára kjörtímabil. Sem forseti var hann eindreginn lýðveldissinni og fylgjandi hlutleysi Bandaríkjanna í alþjóðastjórnmálum. Washington er einn „landsfeðra“ Bandaríkjanna.
George Washington | |
---|---|
Forseti Bandaríkjanna | |
Í embætti 30. apríl 1789 – 4. mars 1797 | |
Varaforseti | John Adams |
Forveri | Embætti stofnað |
Eftirmaður | John Adams |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 22. febrúar 1732 Popes Creek Virginíu, bresku Ameríku |
Látinn | 14. desember 1799 (67 ára) Mount Vernon, Virginíu, Bandaríkjunum |
Þjóðerni | Bandarískur |
Maki | Martha Dandridge (g. 1759) |
Starf | Herforingi, stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Æska
breytaGeorge Washington fæddist 22. febrúar árið 1732 í Popes Creek Plantation sem er við Potomac ána, núna betur þekkt sem Colonial ströndin í Virginíu. Afmælisdagur hans er frídagur í Bandaríkjunum. Washington er ættaður frá Sulgrave á Englandi en afi hans John Washington flutti til Virginíu árið 1657. Faðir hans var Augustine „Gus“ Washington, plantekrueigandi og var með þræla en reyndi síðar að hefja járnnámugröft. Móðir George var Mary Ball Washington. Þegar að George var ellefu ára lést faðir hans. Eftir það varð eldri bróðir George, Lawrence Washington, hans fyrirmynd og var í hálfgerðu föðurhlutverki fyrir hann. Tengdafaðir bróður hans hafði einnig áhrif á hann. George hlaut ekki mikla menntun, mesta lagi sjö til átta ár og þá í formi einkakennslu frá föður sínum og bróðir og vinnu við landmælingar. Sautján ára varð hann opinber landmælingarmaður en það starf fékk hann í gegnum tengsl við mann að nafni Fairfax. Þetta starf var vel borgað svo hann gat farið að fjárfesta í landareignum, en hann átti land sem hann hafði erft eftir föður sinn. Um 1750 þjáðist Lawrence Washington af berklum og drógu þeir hann til dauða. Hann var þá aðstoðarhershöfðingi og eftir dauða hans skiptist sú staða uppí fjórar stöður og tók George við einni af þeim stöðum, sem var staða majórs í her Virginíu. Hann fékk stöðuna vegna tengsla bróður hans í Ohio fyrirtækinu. Á þessum tíma gekk George í Frímúrararegluna í Fredericksburg.
Stríðið gegn Frökkum og Indíánum
breytaÞegar Frakkar fóru að færa sig inn á landsvæði sem Bretar gerðu tilkall til og byggja þar virki og annað var Washington, þá 22 ára gamall, sendur til þess að krefjast þess að þeir drægju sig til baka. Þegar Frakkarnir neituðu var Washington gerður að aðstoðarofursta og hann sendur ásamt her til að hrekja Frakkana burt. Á leið sinni í virkið réðust menn Washingtons ásamt nokkrum indíánum á franska njósnasveit. Sveitin hafði átt að vara virkið við ef Washington væri kominn inná franskt yfirráðasvæði. En Washington og menn hans drápu þá svo þeir gátu ekki varað Jumonville, foringja virkisins við. Snemma einn morguninn gerði hann ásamt 40 manna hersveit árás á virkið, án nokkurrar viðvörunnar. Flestir menn virkisins voru enn sofandi eða að undirbúa morgunmat. Nokkrir reyndu að ná til vopna sinna en voru snögglega yfirbugaðir. Eftir það byggði Washington og hans menn virkið Necessity. Það átti eftir að reynast gagnlaust síðar því þeir þurftu að gefast upp gegn stórum sveitum Frakka og indíána. Frakkarnir vildu að Washington myndi skrifa undir skjal sem sagði að hann hafi ráðið Jumonville af dögum. Þeir sögðu að hann hafi verið þarna af diplómatískum ástæðum (frekar en hernaðarlegum). Washington var síðan sleppt og honum bannað að snúa aftur til Ohio. Þegar hann kom heim til Virginíu sagði hann sig úr hernum, í stað þess að vera lækkaður niður í kaftein. Árið 1755 gekk Washington þó til liðs við breska hershöfðingjann Edward Braddock þegar sá síðarnefndi gerði tilraun til þess að vinna Ohio aftur af Frökkum. Í orrustunni beið breski herinn mikinn ósigur og Braddock lést en Washington barðist af miklu hugrekki og stjórnaði undanhaldi hersins. Eftir stríðið þegar hann kom heim varð hann að hálfgerðri hetju meðal fólksins.
Stund milli stríða
breytaÁrið 1759, nánar tiltekið 6. janúar, giftist Washington Martha Dandridge Custis, ríkri ekkju frá Virginíu. Hún átti tvö börn úr fyrri hjónabandi, þau John Parke Custis, þekktur sem Jacky og Martha Parke Custis, þekkt sem Patsy. Washington ól þau upp sem sín eigin, enda átti hann engin börn og eignuðust þau Martha aldrei nein saman. Ástæða þess er ókunn en talið er að Washington hafi orðið ófrjór eftir að hann smitaðist bólusótt. En þrátt fyrir það gekk hjónaband þeirra vel. Við það að giftast eiginkonu sinni eignaðist Washington þriðjung af 18.000 ekra landareign, eða eins og hann orðaði það í dagbók sinni: „Ég held að um 7000 skeppa af hveiti og 10000 skeppa af indíána korni er meira en nauðsyn á býlinu“. Hann var þó iðinn við að kaupa viðbótar ekrur í sínu eigin nafni og árið 1775 átti hann um 6.500 ekrur með yfir 100 þrælum. Sem stríðshetja og stór landeigandi var hann kosinn á landsbyggðar löggjafarþing. Washington var valinn einn af foringjum mótspyrnumanna, enda talinn mikil stríðshetja eftir 7 ára stríðið. Mótspyrnumenn vildu meðal annars fá viðskiptabann á Englendinga sem fluttu inn vörur þar til að Townshend tollurinn yrði afnuminn. Hann var svo valinn sem þingmaður á Meginlandsþingið.
Frelsisstríðið
breytaWashington tók þátt í fyrsta og öðru Meginlandsþingunum á árunum 1774 – 1775. Í fyrstu var hann hlynntur því að semja friðsamlega við Breta um ágreiningsmál varðandi stefnu þeirra í nýlendunum, en komst svo að þeirri niðurstöðu að slíkt væri ógjörningur.[1] Í apríl 1775 kom Washington fyrir Meginlandsþingið í herbúningi og lýsti því yfir að hann væri tilbúinn í stríð. John Adams frá Massachusetts mælti með því að þingið skipaði Washington sem yfirmann hins nýstofnaða Meginlandshers, vegna fyrri hernaðarreynslu hans, og var það samþykkt einróma.[2] Hann byrjaði á því að gera árás á Boston. Hann náði að hrekja Bretana til New Jersey þar sem þeir söfnuðust saman. Washington fór með menn sína til New York en Bretar gerðu þá árás á borgina. Washington beið ósigur í bardaganum og náði hann rétt svo að sleppa ásamt nokkrum manna sinna. Mikil óvissa ríkti um framtíð Meginlandshersins en sú óvissa hvarf þegar að Washington gerði gagnárás á Trenton, New Jersey og fylgdi þeirri árás eftir með óvæntri árás á Princeton. Þessir óvæntu sigrar urðu til þess að Bretar hröktust frá New Jersey til New York. Næst réðust Bandaríkjamenn á Germantown í Philadelphiu og Hudson River. Árið 1776 leiddi Washington annan herinn í átt að Germantown en skipði undirforingja sínum að gera árás á Hudson River með hinum hernum. Árás Washingtons misheppnaðist en árásin á Hudson River heppnaðist svo að Bretar misstu einn af tveim herjum sínum. Þetta leiddi til þess að Frakkar, Spánverjar og Hollendingar drógust inní stríðið. Eftir að Washington missti Philadelphiu í hendur Breta árið 1777 fóru ýmsir þingmenn að þrýsta á um að Washington yrði sviptur stjórn hersins en herinn stóð á bakvið hann svo ekkert varð af því. Eftir að Frakkar komu inní stríðið fóru Bretar að ókyrrast svo þeir yfirgáfu Philadelphiu og héldu með alla heri sína í Bandaríkjunum til New York árið 1778. Á leiðinni þangað gerði Washington margar árásir á þá. Þegar þangað var komið umkringdi hann Bretana inni í New York og sat um þá. Árið 1781 gerði Washington ásamt Frökkum árás á borgina sem endaði með uppgjöf breska hersins 17. október sama ár. Eftir stríðið sagði Washington af sér sem yfirhershöfðingi. Hann var þó ekki sestur í helgan stein því árið 1787 fór hann á stjórnarskipulagsþingið og var þar kosinn fyrsti forseti Bandaríkjanna.
Forsetaembætti
breytaEftir að hafa verið kosinn fyrsti forseti Bandaríkjanna, og sá eini sem kosinn hefur verið einróma, var Washington settur inn í embætti forseta, þann 30. apríl árið 1789. Fyrsta löggjafaþing Bandaríkjanna skipaði fyrir að hann fengi greidd 25.000 dali á ári, en það þótti mjög mikið á þeim tíma. Þá þegar mjög auðugur samþykkti Washington þessi laun, enda hefði annað þótt óviðeigandi og hneykslanlegt. Hann gætti þess að mæta á allar viðhafnir og athafnir til að undirstrika lýðræðið og láta ekki bendla titilinn við Evrópskt konungsdæmi. Hann tilheyrði ekki neinum stjórnmálaflokki en undirmenn hans skiptust þó í tvo flokka. Sem forseti skipaði Washington fyrstu ríkisstjórnina og fyrsta hæstaréttinn í Bandaríkjunum. Varaforseti hans bæði kjörtímabilin var John Adams, sem varð svo annar forseti Bandaríkjanna. Á meðal ráðherra í ríkstjórn hans var Thomas Jefferson sem gegndi stöðu utanríkisráðherra, en hann varð einnig forseti síðar. Washington tilnefndi ráðherra í ríkisstjórn sína og hlutu þeir allir samþykki þingsins, ekki síst vegna þeirrar virðingar sem Washington naut á meðal þingmanna. Með þessu var sett mikilvægt fordæmi því sú hefð hefur haldist síðan að tilnefningar forseta í ráðherrastöður eru vanalega samþykktar af þinginu án mikillar mótstöðu.[3] Washington var líka einn af tveimur forsetum Bandaríkjanna sem sá sjálfur um stjórn hersins, hinn var James Madison árið 1812. Í alþjóðamálum var Washington óhlutdrægur gagnvart stríðandi Evrópuþjóðum. Árið 1793, þegar stríð geisaði á milli Frakklands annars vegar og Bretlands, Austurríkis, Prússlands, Sardiníu og Hollands hins vegar, lýsti hann yfir hlutleysi Bandaríkjanna.[4] Washington sat tvö kjörtímabil, en neitaði að sitja það þriðja því honum fannst tími til að fá nýtt blóð inn. Washington þótti mjög góður stjórnandi á forsetatímabili sínu, höndlaði öll mál vel og þótti réttlátur í ákvörðunum.
Starfs- og ævilok
breytaEftir að hafa setið 2 kjörtímabil sem forseti settist Washington í helgan stein á býlinu sínu Mount Vernon. Þar fór hann að rækta landið sitt og brugga viskí en einnig eru til sögusagnir um að hann hafi ræktað hamp. Árið 1798 var hann svo skipaður allsherjarhershöfðingi, hæstu stöðu innan hersins, en tilgangurinn með því var að senda viðvörun til Frakka sem íhuguðu stríð gegn þeim. Ári síðar, 1799 fékk Washington slæmt kvef sem að dró hann til dauða. Hann lést 14. desember 1799. Hans síðustu orð voru: „Tis Well“.
Minnismerki
breytaTil eru mörg minnismerki og minnisvarðar um George Washington. Þeirra frægust eru höggmyndin af honum á Rushmore-fjalli og andlit hans sem prýðir eins dalar seðilinn. Afmælisdagur hans er allsherjar frídagur í Bandaríkjunum og er höfuðborg landsins nefnd í höfuðið á honum.
Neðanmálsgreinar
breytaHeimildir
breytaDeGregorio, William A., The Complete Book of U.S. Presidents (New York: Gramercy Books, 2002).
Fyrirrennari: Enginn |
|
Eftirmaður: John Adams |