Grindavík
Þessi grein fjallar um atburði sem eiga sér stað núna. Innihald greinarinnar gæti af þessum sökum breyst þegar fram líða stundir. |
Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipediu. Aðalvandamál þessarar greinar: Kaflaskipta grein |
Grindavík er bær og sveitarfélag á sunnanverðum Reykjanesskaga. Sjávarútvegur og ferðaþjónusta eru aðalatvinnuvegirnir. Stærstu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin eru Þorbjörn, Vísir og Stakkavík. Grindavík er einn mesti ferðamannastaður Íslands, með Svartsengi og Bláa lónið í hrauninu norðan við bæinn. Grindavík er mjög landmikið sveitarfélag sem nær frá Reykjanestá austur að sýslumörkum Árnessýslu. Krýsuvík, sem er öll innan marka sveitarfélagsins, tilheyrir samt Hafnarfirði. Þann 20. febrúar 1941 seldi ríkissjóður Hafnarfjarðarkaupstað hluta af landi jarðarinnar Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfunni).
Grindavíkurbær | |
---|---|
Hnit: 63°50′N 22°26′V / 63.833°N 22.433°V | |
Land | Ísland |
Kjördæmi | Suðurkjördæmi |
Þéttbýliskjarnar | Grindavík |
Stjórnarfar | |
• Bæjarstjóri | Fannar Jónasson |
Flatarmál | |
• Samtals | 423 km2 |
• Sæti | 37. sæti |
Mannfjöldi (2024) | |
• Samtals | 3.579 |
• Sæti | 18. sæti |
• Þéttleiki | 8,46/km2 |
Póstnúmer | 240 |
Sveitarfélagsnúmer | 2300 |
Vefsíða | grindavik |
Samfelld byggð hefur verið í Grindavík frá landnámi. Samkvæmt Landnámu var Grindavík numin af þeim Molda-Gnúpi Hrólfssyni sem settist að í Grindavík og Þóri haustmyrkri Vígbjóðssyni sem nam Selvog og Krýsuvík, stuttu fyrir árið 934.[1] Nafn bæjarins er hugsanlega dregið af grindverki eða hliði til varnar ágangi búfjár eða grindum sem komið er fyrir á vörðu sem siglingarmerki.[2]
Í Grindavík var sjálfvirk veðurathugunarstöð á vegum Siglingastofnunar frá 1995 en árið 2008 setti Veðurstofan líka upp sjálfvirka stöð. Í Grindavík hefur lengi verið öflugt björgunar- og slysavarnastarf. Frumkvöðull slysavarna á Íslandi, Oddur V. Gíslason, var prestur á Stað í Grindavík á árunum 1878-1894, en samhliða preststörfum í Grindavík reri hann til fiskjar og hóf þá mikla baráttu fyrir öryggismálum sjómanna sem leiddi til stofnunar bjargráðafélaga víða um land. Björgunarskip Grindvíkinga er nefnt eftir Oddi V. Gíslasyni. Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík var fyrst björgunarsveita á Íslandi til að nota fluglínutæki til björgunar þegar franski togarinn Cap Fagnet strandaði 24. mars 1931. Innsiglingin í Grindavíkurhöfn þótti lengi varasöm út af brimi, en eftir 2000 hefur hún verið mikið bætt, dýpkuð og varnargarðar lengdir.
Í auðlinda- og menningarhúsinu Kvikunni er sýning um sögu saltfiskvinnslu á Íslandi. Reykjanes Geopark hefur höfuðstöðvar í Grindavík. Í Svartsengi er sýning um jarðhita og jarðhitavinnslu í Gjánni í húsinu Eldborg.
Í Grindavík er Ungmennafélag Grindavíkur (UMFG) sem á lið í efstu deildum bæði í körfuknattleik og fótbolta. Grindavík er líka með sundlið. Sundlaug Grindavíkur er 25 metra útilaug við Íþróttamiðstöð Grindavíkur. Golfklúbbur Grindavíkur rekur vinsælan 18 holu golfvöll, Húsatóftavöll, vestan við bæinn.
Jarðhræringar
breytaJarðskjálftahrinur urðu kröftugar og reglulegar frá 2021 þegar Fagradalsfjallseldar brutust út. Bærinn var rýmdur að undangengnum miklum jarðhræringum að kvöldi 10. nóvember 2023.[3] Kvikugangur hafði þá rutt sér til rúms á tiltölulega litlu dýpi undir bænum og óttast var að eldgos brytist út. Stutt en kraftmikið eldgos varð 18. desember um 3 kílómetra frá bænum. 10. janúar 2024 lést maður er hann féll ofan í sprungu í bænum. Lík hans fannst ekki. 13. janúar 2024 var ákveðið að loka bænum alveg. Gosið hófst aftur 14. janúar 2024 og náði að Grindavík, þannig að hraunið fór yfir þrjú hús.
Í jarðhræringunum 2023-2024 varð altjón á 74 húsum í bænum. [4]
Menning
breytaSjóarinn síkáti
breytaBæjarhátíð Grindavíkur heitir „sjóarinn síkáti“. Sjóarinn síkáti er fjölskylduhátíð sem haldin hefur verið árlega í Grindavík síðan 1996. Hátíðin fer fram í tengslum við Sjómannadaginn.
Þekktir íbúar
breyta- Bjarni Sæmundsson, náttúrufræðingur fæddist og ólst upp í Grindavík.
- Guðbergur Bergsson, rithöfundur fæddist þar.
- Sigvaldi Kaldalóns, héraðslæknir og tónskáld bjó í Grindavík.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Aðalskipulag Grindavíkur 2010-2030“ (PDF). bls. 16.
- ↑ „Hvaðan kemur nafn Grindavíkur á Reykjanesskaga?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Ásta Hlín Magnúsdóttir (11. nóvember 2023). „Grindavík rýmd – Tilmæli almannavarna“. RÚV.
- ↑ Minnst 74 hús í Grindavík gjörónýt Rúv.is, 5/3 2024