Loðvík 16.
Loðvík 16 (23. ágúst 1754 – 21. janúar 1793) var konungur Frakklands frá 1774 til 1791. Hann var síðasti konungur Frakklands fyrir frönsku byltinguna. Loðvík varð krónprins Frakka árið 1765 eftir að faðir hans, Loðvík erfðaprins, sonur Loðvíks 15., lést. Þegar Loðvík 15. lést þann 10. maí 1774 gerðist Loðvík 16. konungur Frakklands og Navarra og notaði þann titil til ársins 1791 en þá var titlinum breytt í Frakkakonung þar til konungsembættið var lagt niður þann 21. september 1792. Loðvík 16. var hálshöggvinn á fallöxi þann 21. janúar 1793.
| ||||
Loðvík 16.
| ||||
Ríkisár | 10. maí 1774 – 4. september 1791 | |||
Skírnarnafn | Louis-Auguste de France | |||
Fæddur | 23. ágúst 1754 | |||
Versalahöll, Frakklandi | ||||
Dáinn | 21. janúar 1793 (38 ára) | |||
Place de la Révolution, París, Frakklandi | ||||
Gröf | Basilique Saint-Denis | |||
Undirskrift | ||||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Loðvík erfðaprins | |||
Móðir | María Jósefa af Saxlandi | |||
Drottning | María Antonetta | |||
Börn | Marie Thérèse, Loðvík Jósef, Loðvík 17., Sophie Hélène Beatrix |
Fyrsti hluti valdatíðar Loðvíks einkenndist af tilraunum til að koma á umbótum í anda Upplýsingarinnar. Þar á meðal var reynt að leggja niður bændaánauð og landeignarskatt og reynt að auka umburðarlyndi fyrir öðrum en kaþólikkum. Franskir aðalsmenn kunnu ekki að meta umbótatilraunirnar og sáu til þess að þeim yrði ekki komið í framkvæmd. Loðvík dró úr ríkiseftirliti á kornmarkaðinum en þetta leiddi til hækkunar á verði brauðs. Þegar uppskeran brást varð úr matarskortur sem fékk almúgann til að rísa upp gegn aðlinum. Frá árinu 1776 studdi Loðvík 16. Bandaríkjamenn gegn Bretum í bandaríska frelsisstríðinu. Það var ekki síst fyrir tilstilli Frakka að Bandaríkjamönnum tókst að vinna sjálfstæði frá Bretaveldi með sáttmála í París árið 1783.
Eftir bandaríska frelsisstríðið var Frakkland hins vegar skuldum vafið og efnahagurinn mjög dræmur. Þetta ýtti undir óvinsældir Loðvíks og konungdæmisins. Óáægja mið- og lágstétta Frakklands leiddi til aukinnar andstöðu við franska aðlinn og gegn einveldinu sem Loðvík og eiginkona hans, María Antonetta, stóðu fyrir. Árið 1789 var ráðist á Bastilluna og franska byltingin hófst.
Óákveðni Loðvíks og íhaldssemi leiddi til þess að margir Frakkar fóru að líta á hann sem tákn harðstjórnar konungdæmisins. Í júní 1791 reyndi hann að flýja til Varennes, fjórum mánuðum áður en ný stjórnarskrá sem gerði Frakkland að þingbundnu konungdæmi, var kynnt. Flóttinn þótti renna stoðum undir þann grun að Loðvík vonaðist til þess að erlend innrás byndi enda á byltinguna og kæmi honum aftur til alræðisvalds. Konungurinn var rúinn trausti og möguleikinn á afnámi konungdæmisins og stofnun lýðveldis varð æ líklegri. Þrátt fyrir skort á stuðningi afnam Loðvík dauðarefsingar og verkamannaskatt, sem hafði skyldað lágstéttir Frakklands til að eyða tveimur vikum á ári í nauðungarvinnu við vegagerð.[1]
Á meðan á fyrsta bandalagsstríðinu gegn Frakklandi stóð var Loðvík handtekinn þann 10. ágúst 1792. Einum mánuði síðar var konungdæmið lagt niður og lýðveldi stofnað í Frakklandi þann 21. september 1792. Réttað var yfir Loðvík á þjóðþingi og hann sakfelldur fyrir landráð. Hann var síðan tekinn af lífi undir fallöxi þann 21. janúar 1793. Byltingarmennirnir sakfelldu hann undir nafninu „Loðvík Kapet“, en þar vísuðu þeir í Húgó Kapet, stofnanda konungsættar Kapetinga. Loðvík 16. var eini konungur Frakklands sem var tekinn af lífi og dauði hans batt enda á meira en þúsund ára samfellt konungsveldi í Frakklandi.
Tilvísanir
breyta
Fyrirrennari: Loðvík 15. |
|
Eftirmaður: Embætti lagt niður Napóleon 1. sem Frakkakeisari árið 1804 |