Svarfaðardalsá kemur úr Svarfaðardal og fellur til sjávar við utanverðan Eyjafjörð, rétt innan við Dalvík. Áin er dragá en blönduð jökulvatni frá hinum mörgu smájöklum sem víða eru í afdölum Svarfaðardals og Skíðadals. Fjölmargar ár falla til Svarfaðardalsár. Stærsta þveráin er Skíðadalsá. Innstu upptök árinnar eru á Heljardalsheiði, í inndölum Skíðadals og í Gljúfurárjökli. Rennsli hennar er mjög breytilegt eftir árstíma og tíðarfari eins og títt er um dragár. Í þurrkatíð síðsumars og í löngum frostaköflum á vetrum getur hún orðið vatnslítil en í vætutíð og einkum í vorleysingum verður hún foráttumikil og flæðir þá yfir allan dalbotn Svarfaðardals. Engir fossar eru í Svarfaðardalsá og raunar ekki Skíðadalsá heldur en fallegir fossar eru í nokkrum af þveránum svo sem Goðafoss (aðgreining) í Hofsá, Holárfoss og Steindyrafoss í Þverá niður. Nokkrar brýr eru á ánni. Árgerðisbrúin er á veginum til Dalvíkur, Hreiðarsstaðabrúin er nokkru innan við ármótin við Skíðadalsá og þar skammt frá er aðalbrúin á Skíðadalsá sjálfri. Svarfaðardalsá er ekki mikil veiðiá en þó hefur hún verið ræktuð upp á síðari áratugum þannig að lagnir veiðimenn geta haft talsvert upp úr krafsinu.

Svarfaðardalsá við Árgerðisbrú skammt frá Dalvík.