Jón Þorkelsson (f. 1822)
Jón Þorkelsson (5. nóvember 1822 – 21. janúar 1904), stundum kallaður Jón Þorkelsson eldri eða Jón Þorkelsson rektor til aðgreiningar frá Jóni Þorkelssyni þjóðskjalaverði, var íslenskur málfræðingur og sagnfræðingur sem var lengi kennari við Lærða skólann í Reykjavík og rektor hans frá 1874-1895.
Jón var fæddur á Sólheimum í Sæmundarhlíð í Skagafirði og voru foreldrar hans Þorkell Jónsson bóndi þar og kona hans Sigþrúður Árnadóttir. Þau voru fátæk og gátu ekki kostað son sinn til náms en hann vann fyrir sér sjálfur, fékk kennslu hjá Sveini Níelssyni og Sveinbirni Egilssyni, var loks tekinn í Bessastaðaskóla 1845 og varð stúdent úr Lærða skólanum í Reykjavík 1848, 25 ára gamall, með fyrstu einkunn. Hann fór svo til náms í Kaupmannahafnarháskóla og lauk embættisprófi í málfræði og sögu 1854. Á námsárunum var hann styrkþegi Árnasafns og vann þar að fræðistörfum. Haustið 1854 varð hann stundakennari við Lærða skólann, var settur fastur kennari 1859 en skipaður í embætti 1862. Árið 1869 varð hann yfirkennari, settur skólameistari 1872 en var veitt embættið 1874 og stýrði skólanum til 1895.
Jón var sagður mikill eljumaður að hverju sem hann gekk. Hann var mjög áhugasamur um íslenska tungu og sögu og skrifaði töluvert um þau efni í tímarit. Hann var forseti Reykjavíkurdeildar Hins íslenska bókmenntafélags 1868-1877 og kjörinn heiðursfélagi þess 1885. Hann var jafnframt félagi í hinu danska vísindafélagi og vísindafélaginu í Kristjaníu (Osló). Hann var heiðursdoktor í heimspeki við Kaupmannahafnarháskóla og riddari af Dannebrog.
Kona Jóns var Sigríður Jónsdóttir frá Kroppi í Eyjafirði og giftust þau 1854. Þau áttu tvö börn sem dóu í eða rétt eftir fæðingu.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- „„Jón Þorkelsson skólastjóri". Ingólfur, 4. tbl. 1904“.
- „„Jón Þorkelsson. Dr. phil., R. Dbr." Andvari, 1. tbl. 1904“.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Skrá yfir bókasafn Jóns Þorkelssonar rektors. Reykjavík 1904.
- Supplement til islandske Ordbøger, Vols. 1-4. Reykjavík 1876-1899. Neudruck mit einem Vorwort von Hans Fix. Saarbrücken:AQ-Verlag 2002-2019. ISBN 978-3-922441-73-1; ISBN 978-3-922441-74-8; ISBN 978-3-922441-75-5; ISBN 978-3-922441-76-2
- Supplementer til islandske Ordbøger, 1876, 1879-85, 1890-97, 1899 digital (pdf, xml). Redigierte Volltextausgabe mit einem Vorwort von Hans Fix. Saarbrücken 2020. (Linguistica septentrionalia, 4). ISBN 978-3-922441-77-9