Boko Haram
Þessi grein inniheldur engar heimildir. Vinsamlegast hjálpaðu til við að bæta þessa grein með því að bæta við tilvísunum í áreiðanlegar heimildir. Efni sem ekki styðst við heimildir gæti verið fjarlægt. |
Boko Haram eru hryðjuverkasamtök sunní-múslima í norðausturhluta Nígeríu, stofnuð árið 2002 eða 2003 af klerkinum Mohammed Yusuf. Markmið samtakanna er að steypa ríkistjórn Nígeríu af stóli og koma á sharía-löggjöf í landinu. Samtökin hafa framið hryðjuverk í Nígeríu, Tjad, Níger og Kamerún.
Nafnið „Boko Haram“ kemur úr tungumálinu hása og merkir „vestræn menntun bönnuð“. Hópurinn hefur einnig viljað kalla sig „Fólkið sem fylgir kenningum Spámannsins [Múhameðs] um útþennslu og jihad“.
Leiðtogi samtakanna, Mohammed Yusuf var skotinn til bana af lögreglu í kjölfarið á Uppreisn Boko Haram 2009. Þá tók Abubakar Shekau við og síðar Abu Musab al-Barnawi árið 2016, en frést hefur af átökum milli stuðningsmanna þeirra tveggja.
Samtökin höfðu tengsl við Al-Kaída en árið 2015 tilkynntu þau aðild sína að Íslamska ríkinu (ISIS, ISIL) og kölluðu sig eftir það „Íslamska ríkið í Vestur-Afríku“.
Frá upphafi vopnaðrar baráttu samtakanna 2009 hafa þau drepið yfir 20.000 manns og hrakið 2,3 milljónir manna frá heimilum sínum. Þau hafa líka staðið fyrir brottnámi fólks þar á meðal ráni á 276 kristnum stúlkum úr skóla í bænum Chibok í apríl árið 2014. Stúlkurnar voru neyddar til að játa múhameðstrú, giftast hryðjuverkamönnunum og eignast með þeim börn.
Um mitt ár 2014 náðu samtökin að leggja undir sig stór landsvæði í heimahéraði sínu, Borno, en tókst ekki að ná höfuðstað þess, Maiduguri, á sitt vald.
Nígeríuher, lögregla og öryggissveitir hafa barist gegn samtökunum en spilling innan raða þeirra og mannréttindabrot hafa hindrað framgang baráttunnar. Í september 2015 tilkynnti varnarmálaráðuneyti Nígeríu að allar bækistöðvar Boko Haram hefðu verið eyðilagðar og í desember sama ár sagði forseti Nígeríu, Muhammadu Buhari, að samtökin væru „tæknilega sigruð“. Engu að síður hafa hryðjuverk samtakanna haldið áfram.