Þykkvabæjarklaustur
Útlit
Þykkvabæjarklaustur (einnig þekkt sem Thiccvabæjarklaustur) er kirkjustaður í Álftaveri. Þar stofnaði auðmaðurinn Þorkell Geirason (d. 1187) munkaklaustur árið 1168 og gaf því eigur sínar. Hélst klaustrið, sem var af Ágústínusarreglu, allt til siðaskipta og var löngum auðugt og áhrifaríkt. Tveir ábótar klaustursins urðu biskupar og Eysteinn Ásgrímsson var munkur þar. Stuðlabergssúla er á þeim stað sem talið er að klaustrið hafi staðið.
Ábótar
[breyta | breyta frumkóða]Hér er upphafsár venjulega miðað við vígslu til ábóta en stundum gegndu menn hlutverkinu nokkuð fyrir formlega vígslu. Sumir ábótar Þykkvabæjarklausturs eru vel kunnir en um aðra eru heimildir mjög rýrar og á það sérstaklega við um 15. öldina. Ýmis ártöl eru óviss.
- Þorlákur Þórhallsson, 1170 - 1175, síðar biskup og dýrlingur.
- Guðmundur Bjálfason, 1178 - 1197, "góðr maðr ok rjettlátr, mildr ok metnaðarlauss".
- Jón Loftsson (eða Ljótsson), 1198 - 1224.
- Hallur Gissurarson, 1224 - 1230, sonur Gissurar Hallssonar lögsögumanns. Var áður ábóti á Helgafelli.
- Arnór Össurarson, 1232 - 1247. Sagði af sér embætti.
- Brandur Jónsson, 1247 - 1263, mikill lærdómsmaður, þýddi m.a. Alexanders sögu, varð síðar biskup á Hólum. Hann hélt skóla í klaustrinu og voru þeir Árni Þorláksson Skálholtsbiskup, Jörundur Þorsteinsson Hólabiskup og Runólfur Sigmundsson ábóti á meðal nemenda hans.
- Runólfur Sigmundsson, 1264 - 1306, öflugur samherji Árna Þorlákssonar í staðamálum síðari
- Loðmundur, 1307 - 1311.
- Þorlákur Loftsson, 1314 - 1354, kemur mjög við sögu Lárentíusar Kálfssonar biskups, lenti í útistöðum við þrjá klausturbræður en meðal þeirra var Eysteinn Ásgrímsson sem orti Lilju, var talinn helgur eftir dauða sinn.
- Eyjólfur Pálsson, 1354 - 1377. Hann hafði áður verið ráðsmaður í Skálholti.
- Runólfur Magnússon, 1378 - 1403, dó í plágunni miklu.
- Jón Hallfreðarson, 1405 - 1422, fórst við Vestmannaeyjar á leið heim frá Noregi.
- Jón Þorfinnsson, var orðinn ábóti fyrir 1428 og dáinn fyrir 1448.
- Kolbeinn var orðinn ábóti 1448.
- Bárður Auðunsson, 1461 - 1492
- Guðmundur Sveinsson, um 1485 - 1506?
- Narfi Jónsson, 1506 - ?. Var áður kirkjuprestur í Skálholti og síðan fyrsti príor á Skriðuklaustri.
- Árni Steinmóðsson, um 1515 - 1520.
- Kollgrímur Koðránsson (Kolgrímur), 1523 - u.þ.b. 1530, vinur Ögmundar Pálssonar. Var áður prestur á Valþjófsstað og í Vallanesi.
- Sigvarður Halldórsson, frá 1530, kemur við sögu í siðaskiptunum sem samherji Jóns Arasonar. Var kjörinn til biskups af kaþólskum mönnum eftir lát Gissurar Einarssonar 1448 og fór til Danmerkur en fékk ekki biskupsvígslu. Lést erlendis og er sagt að hann hafi þá verið búinn að snúast til lútherstrúar.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Janus Jónsson (1980) [1887]. Um klaustrin á Íslandi. Endurprent, Reykjavík.
- „Þykkvabæjarklaustur. Sunnudagsblaðið, 15. maí 1966“.