Fara í innihald

Almannagæði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Vegir eru dæmi um almannagæði.

Almannagæði (eða samgæði, e. public good) er hagfræðilegt hugtak sem á við um vörur og þjónustu („gæði“) þar sem nýting eins aðila hefur ekki áhrif á nýtingu annars, og allir hafa jafnan aðgang að þessum gæðum þannig að nýting eins skerðir ekki nýtingu annarra. Sem dæmi um almannagæði má nefna landvarnir og andrúmsloft.

Skilgreining

[breyta | breyta frumkóða]

Almannagæði (eða samgæði) eru gæði sem ekki er hægt að girða fyrir að fólk noti og notkun eins aðila á gæðunum minnkar ekki notagildi annarra. Almannagæði eru ekki útilokandi og skapa ekki samkeppni milli einstaklinga um notkun þeirra.[1]

Flokkun gæða

[breyta | breyta frumkóða]

Á mörkuðum hagkerfisins er verslað með vörur og þjónustu, sem í einu orði eru kölluð „gæði.“ Þessi gæði er hægt að flokka á fjóra vegu út frá tveimur viðmiðum. Almannagæði eru einn af þessum fjórum flokkum. Tvíþættur greinarmunur er gerður á þeim gæðum, sem eru án markaðsverðs, og ekki er verslað með á mörkuðum hagkerfisins. Annars vegar er skoðað hvort hægt sé að útiloka fólk frá því að njóta gæðanna, og hinsvegar ef að einn aðili noti gæðin, minnki notagildi þeirra fyrir aðra.[2]

Viðmiðin tvö og flokkarnir fjórir eru eftirfarandi, með dæmum fyrir hvern flokk:[3]

Notkun eins minnkar notagildi annarra
Nei
Hægt er að útiloka aðra frá notkun Einkavörur
gos
fatnaður
Eðlileg einokun
áskriftarsjónvarp
Hvalfjarðargöng
Nei Sameiginlegar auðlindir
fiskur í vötnum
Dimmuborgir
Almannagæði
landvarnir
vegir
Gæði er hægt að flokka á fjóra vegu í samræmi við tvö viðmið:
(1) Eru gæðin útilokandi? Þ.e. er hægt að hindra aðgang fólks að gæðunum?
(2) Skapa gæðin samkeppni milli einstaklinga um notkun? Þ.e. minnkar notkun eins aðila notagildi annars aðila á gæðunum?[4]

Eins og sést í töflunni eru landvarnir eitt helsta dæmið um almannagæði. Landvarnir eru þess eðlis að það er ekki hægt að útiloka fólk frá því að nota þær; sé einstaklingur staddur innan lands sem viðheldur landvörnum þá nýtir hann þeirra gæða sjálfkrafa. Þá dregur notkun eins aðila á landvörnum ekki úr notagildi annars. Önnur einföld dæmi um almanngæði eru vegir, flugeldasýningar og andrúmsloft.[5]

Vandamál við almannagæði

[breyta | breyta frumkóða]
Almannagæði eru viðkvæm fyrir neikvæðum ytri áhrifum eins og mengun.

Eitt alvarlegt vandamál við almanngæði er svokallaður „sníkilsvandi“ (e. free rider problem), en einnig er talað um „ómagavanda.“[6] Hér er átt við einstaklinga sem nýta sér almannagæðin en greiða ekki fyrir að nota þau. Þeir eiga gjarnan auðvelt með að komast upp með það, og það bitnar á öðrum sem greiða fyrir að fá að njóta gæðanna á sama hátt, t.d. í gegnum skattfé. Almannagæði eru oft fjármögnuð af ríkissjóði, og því er hægt að segja að þeir sem svíkjast undan skatti séu „laumufarþegar“ (e. free rider) hvað varðar almannagæði sem eru rekin af ríkinu.[7]

Dæmi um sníkilsvandann er t.d. þegar einstaklingur horfir á flugeldasýningu án þess að hafa átt nokkurn þátt í að greiða kostnaðinn af henni. Einnig er notkun vita þekkt dæmi þegar kemur að sníkilsvandanum. Vitar veita opinbera þjónustu og eru reknir af ríkinu, en þeir sem nota vita hverju sinni greiða ekki gjald fyrir þá notkun.[8]

Þá verða almannagæði oft fyrir barðinu á neikvæðum ytri áhrifum (úthrifum), sem geta haft mikinn aukalegan kostnað í för með sér. T.d. þegar efnahagsstarfsemi mengar andrúmsloftið eða umhverfið. Þá leiðir notkun á vegum einnig til vegslits, og viðhald á vegum kostar .

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Ágúst Einarsson, 2007, bls. 109-110; Field, 2008, bls. 324; Mankiw og Taylor, 2010, bls. 208-209.
  2. Ágúst Einarsson, 2007, bls. 109.
  3. Ágúst Einarsson, 2007, bls. 109.
  4. Mankiw og Taylor, 2010, bls. 208.
  5. Ágúst Einarsson, 2007, bls. 110; Mankiw og Taylor, 2010, bls. 210.
  6. Ágúst Einarsson, 2007, bls. 110.
  7. Ágúst Einarsson, 2007, bls. 110; Mankiw og Taylor, 2010, bls. 209.
  8. Ágúst Einarsson, 2007, bls. 110-111; Mankiw og Taylor, 2010, bls. 212.
  • Ágúst Einarsson (2007). Rekstrarhagfræði. Reykjavík: Mál og menning.
  • Field, Barry C (2008). Natural Resource Economics: an introduction (2. útgáfa). Long Grove: Waveland Press.
  • Mankiw, N. G. og Taylor, M. P (2010). Economics (special edition). Andover: Cengage Learning.