Fara í innihald

Android

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Android farsími

Android er stýrikerfi hannað aðallega fyrir snjallsíma, spjaldtölvur og skyld tæki sem byggir á opnum hugbúnaði og er byggt upp á breyttri útgáfu Linux-kjarnans. Það samanstendur af stýrikerfis-kjarnanum sjálfum, miðbúnaði og helstu forritum. Google Inc. keypti Android Inc., fyrirtækið sem upphaflega vann að þróun Android stýrikerfisins árið 2005. Android er núna vinsælasta stýrikerfi í heimi líka vinsælla en Windows, sem er þó enn ráðandi á hefðbundum einkatölvum sem það hefur aðallega verið notað á. Þó sjaldgæft sé að Android sé keyrt á hefðbundnum einkatölvum (og t.d. með mús) hefur það verið hægt í langan tíma (og líka á Chromebook) en stuðningurinn (við stóra skjái) var svo endurbættur í Android 12L.

Auk þessa hefur Google þróað Android TV fyrir sjónvörp, Android Auto fyrir bíla og Wear OS (sem áður hét Android Wear) fyrir snjallúr, hvert og eitt með sérhæft notendaviðmót. Aðrar útgáfur af Android hafa verið notaðar fyrir leikjavélar, stafrænar myndavélar og önnur raftæki.

Notendaviðmót Android (fyrir síma og spjaldtölvur) er aðallega byggt á beinum samskiptum við fjölsnertiskjá (einnig er hægt að nota viðtengt lyklaborð, en líka skjá, og mús); í breyttum Android útgáfum notað án snertiskjás s.s. á sjónvörpum. Notandinn stjórnar þá tækinu, s.s. síma, með fingrahreyfingum. Tækið bregst einnig við sé því hallað eða snúið. Sé því snúið um t.d. 90 gráður þá heldur mynd á skjá áfram að snúa upp. Núorðið, með viðbótum við Android sem koma með mörgum tækjum, er líka hægt að framkvæma sumar aðgerðir með tali, t.d. við leit á neti eða þar sem tali er breytt í texta, s.s. SMS. Google þróaði svona möguleika fyrir enskt tal og fleiri mál, og í samstarfi við Háskólann í Reykjavík líka fyrir íslenskt mál. Android 13 býður upp á stillingu fyrir að forrit geti boðið upp á annað mál, t.d. íslensku (en forritið þar að styðja þann möguleika), en valið er fyrir aðalviðmót stýrikerfis (sem er venjulega enska).[1]


Android var kynnt þann 5. nóvember 2007, samhliða stofnun Open Handset Alliance samtakanna (og fyrsta Android tækið var selt í september 2008). Það eru samtök 80 vélbúnaðarframleiðanda, hugbúnaðarframleiðanda og fjarskiptafyrirtækja sem styðja við þróun opinna staðla fyrir farsíma og skyld tæki. Opni forritakóðinn að Android sjálfu þ.e. grunninum (án Linux kjarnans sem líka er opinn kóði) gengur undir nafninu Android Open Source Project (AOSP), sem er að mestu gefinn út undir Apache-leyfinu, sem er leyfi fyrir frjálsan og opinn hugbúnað (GPL-leyfið er líka frjálst, og er notað fyrir Linux-kjarnann, hluta Android).

Þó svo að Android sé opinn hugbúnaður, er svo nánast aldrei um að ræða varðandi allan þann hugbúnað sem kemur uppsettur á Android tækjum (og margir telja hluta af stýrikerfinu), með öllum þeim tengda hugbúnaði sem venjulega kemur með. Sem dæmi nota flestir notendur Google Play forritið/búðina (og Google Play Services), sem er séreignarhugbúnaður, þ.e. ekki opinn, til að setja inn Android forrit. Aðrar leiðir eru mögulegar til þess og sumir framleiðendur bæta við sínu eigin forriti sem er staðgengill eða viðbót við þá leið. Önnur dæmi um séreignarhugbúnað Google Mobile Services (GMS), sem yfirleitt kemur með (og mikið af Android forritum, sem notendur geta náð í, krefjast líka að GMS sé fyrirfram uppsett á tækinu), sem innifelur t.d. líka séreignarhugbúnaðinn Google Chrome, vafra sem margir telja ranglega að sé hluti af stýrikerfinu því oft látinn fylgja með (t.d Firefox, sem er opinn hugbúnaður, er valkostur við Chrome) og eldri útgáfur Android innihéldu vafra sem var ekki opinn, þ.e. ekki séreignarhugbúnaður.

Samfélag Android inniheldur margra sem vinna við hugbúnaðargerð; hanna forrit fyrir stýrikerfið og forrita oft í forritunarmálinu Kotlin (sem er það mál sem Google ráðleggur; eða öðrum, t.d. eru Java forrit líka vinsæl því það var einu sinni eini möguleikinn) og auka þar með virkni Android. Nú eru til yfir 3 milljón forrit fyrir Android. Google Play er vefverslun með forrit sem rekin er af Google en einnig er hægt að hlaða niður forritum og viðbótum fyrir Android frá öðrum aðilum.

Android hefur verið mest selda stýrikerfið um allan heim á snjallsímum síðan 2011 og á spjaldtölvum síðan 2013. Það hefur yfir tvo milljarða af notendum.


Android 13, sem kom út 15. ágúst 2022, er nýjasta útgáfan og Android 12.1/12L sem kom nýlega út er með endurbætur fyrir síma sem má leggja saman, spjaldtölvur, stóra skjái (e. desktop-sized) og Chromebook fistölvur.

Android-útgáfur

[breyta | breyta frumkóða]

Útgáfur eldri en Android 10 eru ekki studdar af framleiðanda Android, Google, og því fá notendur þeirra ekki lengur öryggisuppfærslur. Sumir framleiðendur Android tækja senda út öryggisuppfærslur, eða aðrar uppfærslur, í styttri tíma en Android er stutt af Google, eða senda jafnvel aldrei út neinar uppfærslur af neinu tagi.

Android 12 sem kom nýlega út er mest notaða útgáfan af Android, bæði á símum og spjaldtölvum. Android 13 (Tiramisu) er nýjasta útgáfan og Android 14 (Upside Down Cake) er væntanlegt seinni hluta árs 2023.

Eftirfarandi tafla sýnir útgáfur Android stýrikerfis og "API level" (sem er gott að vita fyrir forritara).

Stýrikerfi Nafn stýrikerfis Útgáfudagur API útgáfunúmer
13 Android 13 (Tiramisu) 15. ágúst 2022 33
12L Android 12L (Snow Cone v2) 7. mars 2022 32
12 Android 12 (Snow Cone) 4. október 2021 31
11 Android 11 (Red Velvet Cake) 8. september 2020 30
10 Android 10 (Quince Tart) 3. september 2019 29
9 Pie 6. ágúst 2018 28
8.1 Oreo 5. desember 2017 27
8.0 21. ágúst 2017 26
7.1 Nougat 4. október 2016 25
7.0 22. ágúst 2016 24
6.0 Marshmallow 5. október 2015 23
5.1.x Lollipop 9. mars 2015 22
5.0–5.0.2 3. nóvember 2014 21
4.4 KitKat 31. október 2013 19
4.3 Jelly Bean 24. júlí 2013 18
4.2.x 13. nóvember 2012 17
4.1.x 9. júlí 2012 16
4.0.3–4.0.4 Ice Cream Sandwich 16. desember 2011 15
2.3.3–2.3.7 Gingerbread 9. febrúar 2011 10
2.2 Froyo 20. maí 2010 8

Í júlí 2021 er 66% af Android vélbúnaði er með Vulkan stuðning (47% á nýrra Vulkan 1.1),[2] arftaka OpenGL (allar útgáfur allt til aftur Android 7.0 Nougat styðja Vulkam, ef vélbúnaðurinn gerir það). Á sama tíma er 91.5% af vélbúnaði með stuðning fyrir OpenGL ES 3.0 eða nýrra (að auki notar afgangurinn af vélbúnaði, 8.50%, útgáfu 2.0), og 73.50% nota síðustu útgáfuna OpenGL ES 3.2.

Forritun fyrir Android

[breyta | breyta frumkóða]

Upphaflega var eingöngu hægt að forrita svokölluð "öpp" (e. app), fyrir Android stýrikerfið í forritunarmálinu Java (þó svo að C forritunarmálið sé notað af stýrikerfinu sjálfu, Linux kjarnann og t.d. "Bionic" hluta þess, og reklum (e. driver) sem Android notar).

Síðan í maí 2019 er Kotlin það forritunarmál sem Google ráðleggur og notar sjálft í Android forritun.

Hægt er að nota Java 7 með öllum eiginleikunum úr því máli (og suma úr Java 8, og jafvel nýrri útgáfur, t.d. Java 9), en í raun öll forritunarmál sem þýðast yfir í Java "bytecode" líkt og Kotlin gerir. Annað mál, Go, frá Google, hefur stuðning (sem þó er takmarkaður). Og eins og áður segir er C og nú C++ notað, en bæði hafa takmarkaðan stuðning (og var ómögulegt að nota upphaflega, fyrir sjálf smáforritin). Því eru þau oftast ekki notuð og þegar annað hvort eða bæði er notað, er samt meginhlutinn samt yfirleitt skrifaður í Java.

Markaðshlutdeild

[breyta | breyta frumkóða]

Greiningarfyrirtækið Canalys, greindi frá því árið 2010 að Android stýrikerfið væri söluhæsta stýrikerfi fyrir snjallsíma og tók þar fram úr Symbian stýrikerfi Nokia farsímarisans sem hafði verið það söluhæsta í tíu ár. Árið 2014, seldust 1000 milljón tæki með Android, meira en nokkur önnur stýrikerfi hafa nokkurn tímann selst. Við það varð Android vinsælasta stýrikerfi í heimi, uppsafnað, líka vinsælla en Windows sem er þó enn ráðandi á afmörkuðum hluta markaðarins, þ.e. á hefðbundum einkatölvum sem það hefur aðallega verið notað á.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Per-app language preferences
  2. „Distribution dashboard“. Android Developers. júlí 2021. Sótt 12. október 2021.