Assyría
Assyría var stórveldi sem ríkti yfir frjósama hálfmánanum, Egyptalandi og stórum hluta Litlu-Asíu í fornöld. Ríkið hét eftir upprunalegri höfuðborg þess, hinni fornu borg Assúr (akkadíska: Aššur; arabíska: أشور Aššûr; hebreska: אַשּׁוּר Aššûr, aramaíska: Ashur). Síðar varð Níneve höfuðborg ríkisins (skammt frá Mosul í Írak í dag). Stórveldistíma Assyríu er skipt í þrjú tímabil: Gamla ríkið (20. – 15. öld f.Kr.), Miðríkið (15. – 10. öld f.Kr.) og Ný-Assyríska ríkið (911 – 612 f.Kr.) en af þessum þremur tímabilum er það síðasta langþekktast.
Veldi Assyríu leið undir lok þegar ný-babýlónskt ríki Kaldea reis til áhrifa í frjósama hálfmánanum.
Assurbanipal konungur, sem var uppi 685 f.Kr. – 627 f.Kr., setti á laggirnar fyrsta bókasafnið í Mið-Austurlöndum í borginni Níneve. Bókasafnið samanstóð af leirtöflum og þekktasta verkið er Gilgameskviða. Segir sagan að þegar Alexander mikli sá bókasafn Assurbanipals hafi það veitt honum innblástur að því að stofna eigið bókasafn, sem varð að Bókasafninu í Alexandríu undir leiðsögn Ptolemajosar I Soter.