Bob Hawke
Bob Hawke | |
---|---|
Forsætisráðherra Ástralíu | |
Í embætti 11. mars 1983 – 20. desember 1991 | |
Þjóðhöfðingi | Elísabet 2. |
Landstjóri | Sir Ninian Stephen Bill Hayden |
Forveri | Malcolm Fraser |
Eftirmaður | Paul Keating |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 9. desember 1929 Bordertown, Suður-Ástralíu, Ástralíu |
Látinn | 16. maí 2019 (89 ára) Northbridge, Nýja Suður-Wales, Ástralíu |
Þjóðerni | Ástralskur |
Stjórnmálaflokkur | Verkamannaflokkurinn |
Maki | Hazel Masterson (g. 1956; skilin 1994) Blanche d'Alpuget (g. 1995) |
Börn | 4 |
Robert James Lee Hawke (9. desember 1929 – 16. maí 2019) var forsætisráðherra Ástralíu frá 1983 til 1991.
Hawke fæddist árið 1929 og var prestssonur. Hann nam lögfræði við háskóla í Ástralíu en gekk síðan í Oxford-háskóla á Englandi. Hann gat sér þar góðan orðstír sem námsmaður og íþróttamaður og vakti einnig athygli þegar hann komst í heimsmetabók Guinness með því að svolgra í sig 1,2 lítra af bjór á 12 sekúndum.[1]
Þegar Hawke sneri heim til Ástralíu frá námi hóf hann störf fyrir áströlsku verkalýðshreyfinguna og var kjörinn forseti áströlsku verkalýðssamtakanna ACTU árið 1969. Hawke var fyrst kjörinn á ástralska þingið árið 1980. Þann 3. febrúar árið 1983 var hann kjörinn formaður ástralska Verkamannaflokksins, sama dag og Malcolm Fraser, sitjandi forsætisráðherra Ástralíu úr Frjálslynda flokknum, kallaði til þingkosninga. Verkamannaflokkurinn vann kosningarnar og Hawke tók við af Fraser sem forsætisráðherra þann 11. mars 1983.[1]
Hawke vann þrjár kosningar til viðbótar í röð sem leiðtogi Verkamannaflokksins og var því þausætnasti og sigursælasti forsætisráðherra Ástralíu úr flokknum.[2] Á stjórnartíð hans var ástralska heilbrigðisþjónustan stofnuð. Stjórn Hawke samdi jafnframt við áströlsk verkalýðsfélög um lægri launakröfur í skiptum fyrir tryggingu á almennri lágmarksafkomu, viðurkenndi lagið Advance Australia Fair sem opinberan þjóðsöng Ástralíu og batt enda á síðustu leifarnar af breskri lögsögu í Ástralíu með lagasetningu árið 1986.[3]
Árið 1991 bauð fjármálaráðherra ríkisstjórnar Hawke, Paul Keating, sig fram á móti honum í formannskjöri Verkamannaflokksins. Keating vændi Hawke um að hafa svikið loforð um að láta af embætti og leyfa sér að taka við forsætisráðherraembættinu eftir kosningar árið 1990.[4] Hawke vann formannskjörið á móti Keating en Keating gerði aðra atlögu að formannsembættinu síðar sama ár og tókst í það skiptið að sigra Hawke. Keating tók því við af Hawke sem forsætisráðherra og flokksformaður þann 20. desember 1991.[5]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Jóhanna Kristjónsdóttir (9. desember 1984). „Hann þykir hafa eflt metnað og þjóðernisvitund landa sinna“. Morgunblaðið. Sótt 18. maí 2019.
- ↑ Kristján Róbert Kristjánsson (16. maí 2019). „Bob Hawke látinn“. RÚV. Sótt 18. maí 2019.
- ↑ „Australia Act (Commencement) Order 1986“ (PDF). Sótt 18. maí 2019.
- ↑ Sveinn Sigurðsson (9. júní 1991). „Foringjaslagur og svikabrigsl innan Verkamannaflokksins“. Morgunblaðið. Sótt 18. maí 2019.
- ↑ „Kreppa og þrálátt atvinnuleysi urðu Hawke að falli“. Morgunblaðið. 20. desember 1991. Sótt 18. maí 2019.
Fyrirrennari: Malcolm Fraser |
|
Eftirmaður: Paul Keating |