Geymsla matvæla
Geymsla matvæla er sérstök meðhöndlun matvæla til að tryggja varðveislu þeirra um lengri tíma. Megináhersla er lögð á að hægja á eða koma í veg fyrir rotnun af völdum örvera sem spillir matnum. Til eru geymsluaðferðir sem nýta aðrar örverur, ger og sveppi til að auka geymsluþol matvæla (t.d. vín og osta). Næringargildi, bragð og áferð er meðal þess sem lögð er áhersla á að varðveita. Geymsluaðferðir eru ólíkar eftir menningu og matarhefð; það sem þykir gott í einu samfélagi, þykir ónothæft í öðru.
Geymsluaðferðir miða venjulega að því að hindra vöxt gerla, sveppa og annarra örvera og koma í veg fyrir oxun sem veldur þráa í fitu. Til eru geymsluaðferðir til að koma í veg fyrir virkni efnahvata sem valda upplitun og breytingum á bragði. Sumar aðferðir fela í sér innsiglun eftir meðhöndlun til að koma í veg fyrir nýtt örverusmit (t.d. niðursuða), meðan aðrar aðferðir, eins og þurrkun, gera það að verkum að hægt er að geyma matinn í langan tíma án sérstakra íláta.
Algengar aðferðir við geymslu matvæla eru þurrkun, úðaþurrkun, frostþurrkun, frysting, lofttæming, niðursuða, geislun og íblöndun efna, svo sem rotvarnarefna og óvirkra lofttegunda eins og koltvísýrings. Algengar geymsluaðferðir sem breyta bragði og áferð matvælanna eru meðal annars sultun, verkun (súrsun, kæsing, reyking og söltun) og niðurlagning (í sýróp, feiti eða áfengi).