Guðmundur Friðjónsson
Guðmundur Friðjónsson frá Sandi (24. október 1869 – 26. júní 1944) var rithöfundur, skáld og bóndi sem bjó á bænum Sandi í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann er einna þekktastur fyrir sérstæðan ritstíl sinn.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Guðmundur fæddist að Silalæk í Aðaldal þar sem faðir hans, Friðjón Jónsson, var þá bóndi. Friðjón flutti síðar að Sandi og Guðmundur tók þar við búskap eftir föður sinn. Guðmundur gekk í Möðruvallaskóla árin 1891-1893 og og var það eina menntun hans. Upp frá því gerðist hann bóndi og umsvifamikill rithöfundur og stóð oft styr um hann í blöðum og tímaritum landsins. Í mörg ár hafði hann þann sið að hann tók sig upp frá búi sínu og flutti fyrirlestra um ýmis þjóðmál, hugmyndir sínar og hugsjónir. Bróðir Guðmundar, Sigurjón Friðjónsson, var einnig rithöfundur og skrifaði eins og bróðir hanns um mörg málefni sem ekki voru almennt í umræðunni og umdeild. Einn sonur Guðmundar, Þóroddur Guðmundsson, var einnig rithöfundur og ritaði meðal annars ævisögu Guðmundar.
Fyrsta kvæðabók Guðmundar kom út árið 1902 og hét Úr heimahögum, en áður hafði hann birt smásögur, ljóð og sagnaþætti í Eimreiðinni. Næstu ár hélt Guðmundur uppteknum hætti, ritaði stutta þætti og sögur, orti kvæði og birti sumt af þessu hér og þar. Hann skrifaði ritgerðir um ýmis efni í blöð og tímarit. Árið 1904 gaf hann út safn af dýrasögum, Undir beru lofti, (hann gaf svo út aðra bók með dýrasögum árið 1938: Úti á víðavangi). Árið 1907 kom út eina skáldsaga hans, Ólöf í Ási. Sagan hlaut misjafna dóma, þótti klúr og jafnvel ósiðleg á köflum. Guðmundur skrifaði ekki lengri sögur enda mun hann hafa átt örðugt með að taka fyrir ritverk sem kröfðust langrar aðsetu.
Helstu ritverk
[breyta | breyta frumkóða]- Úr heimahögum - 1902
- Undir beru lofti - 1904
- Ólöf í Ási - 1907
- Tíu sögur - 1918
- Úr öllum áttum - 1919
- Sólhvörf - 1921
- Uppsprettulindir - 1921
- Kveldglæður - 1923
- Héðan og handan - 1925
- Kvæði - 1925
- Kviðlingar - 1929
- Úr byggð og borg - 1934
- Úti á víðavangi - 1938
- Utan af víðavangi - 1942