Fara í innihald

Guðsdómur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Guðsdómur (lat. ordalium, iudicium dei), einnig kallaðir skírslur, voru sönnunargögn í dómsmálum og var beitt sem seinasta úrræði í sönnunarfærslu ef málið var talið mikilvægt og ef önnur sönnunargögn voru ekki talin duga. Dómarar voru oftast bundnir af niðurstöðu guðsdóms. Í þrengri merkingu fólst guðsdómur í því að æðri máttarvöld voru beðin um að bera vitni í dómsmáli og „svör“ þeirra túlkuð. Í víðari merkingu fól hann í sér tjáningu æðri máttarvalda án þess að það væri endilega til úrlausnar á réttarágreiningi.

Guðsdómar voru mismunandi og má þar meðal annars nefna líkamlegar raunir sem aðili dómsmáls var látinn gangast undir og útkoma tilviljunarkennds atburðar. Meðal helstu tegunda guðsdóma voru:

  • Eiturraun, þar sem sakborningurinn innbyrti eitur eða annarri ólyfjan.
  • Vatnsraun, þar sem sakborningnum var varpað eða í vatn og séð hvort hann flyti á vatninu eða sykki.
  • Brenniraun, þar sem sakborningurinn þurfti að snerta eitthvað rosalega heitt og séð hvort hann bólgni eða fái brunasár.
    • Í ketiltaki (lat. judicium aquae ferventis) þurfti hann að dýfa hendi sinni í sjóðandi vatn.
    • Í járnburði (lat. judicium ferri igne ferventis) hélt hann um glóandi járn, en ýmis önnur afbrigði voru samt þekkt.
    • Eldraun (lat. judicium ignis) fólst í því að hörund sakbornings var látin snerta eld eða logandi eldsneyti, en ekki er vitað til þess að þeirri aðferð hafi verið beitt hér á landi.
  • Hólmganga (lat. judicium duelli), þar sem gert var út um deilumál með handalögmáli eða vopnum.
  • Líkraun (lat. judicium cruentationis), þar sem hinn grunaði var leiddur að líki þess myrta, og myndi líkið bregðast við ef sá grunaði væri sekur.
  • Hlutdrættir, þar sem reynt var á tilviljuna með ýmsum hætti, eins og með teningskasti eða öðrum aðferðum.

Í sumum ríkjum var sú regla viðhöfð að ef sakleysi sakbornings telst sannað með guðsdómi skyldi ásakandinn einnig ganga í gegnum sömu raun. Slík regla var ekki til staðar á Íslandi.