Guy Fawkes-nótt
Guy Fawkes-nótt er hátíð (en ekki opinber frídagur) sem haldin er að kvöldi 5. nóvember, aðallega í Bretlandi, en líka í ýmsum samveldislöndum. Hátíðin er haldin til að minnast hins misheppnaða Púðursamsæris þegar hópur kaþólskra samsærismanna, þar á meðal Guy Fawkes, hugðust sprengja Jakob 1. og breska þingið í loft upp með því að koma mörgum púðurtunnum fyrir í kjallara Westminsterhallar 5. nóvember 1605 sem þeir ætluðu svo að kveikja í við þingsetningu daginn eftir. Samsærið komst upp um kvöldið þegar Guy Fawkes var gripinn í kjallaranum og allir samsærismennirnir voru handteknir og teknir af lífi í kjölfarið.
Á Guy Fawkes-nótt er venjan að skjóta upp flugeldum og kveikja í bálköstum þar sem brúða af Guy Fawkes er brennd. Fyrir fimmta nóvember gengu börn um með brúðuna og betluðu peninga („Penny for the Guy“) en slíkt er orðið sjaldgæft í seinni tíð.