Fara í innihald

Hugræn atferlismeðferð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hugræn atferlimeðferð (stundum skammstafað HAM eða CBT af enska heitinu cognitive behavioral therapy) er meðferðarúrræði sem gengur út á það að hjálpa fólki að þekkja sínar eigin óheilbrigðu hugsanir, hegðun, og viðhorf, og kunna betur að kljást við þau. Meðferðin var upphaflega þróuð til að vinna gegn þunglyndi en hún hefur reynst gagnleg við hinum ýmsu kvillum svo sem almennum kvíða, fælni, svefnleysi, lystarstoli (anorexíu), geðhvarfasýki, áfengissýki, verkjalyfjafíkn, og ýmsum kækjum. Einnig getur hún bætt líðan fólks sem verður alvarlega veikt. Árangur af hugrænni atferlismeðferð við meðferð þessara raskana er í flestum tilfellum sambærilegur eða betri en árangur lyfjameðferðar, en aðgengi er lakara.[1]

Nafnið hugræn atferlismeðferð vísar til hugrænnar meðferðar og atferlismeðferðar en nálganir úr báðum meðferðum eru notaðar í hugrænni atferlismeðferð.

Rætur hugmynda hugrænnar atferlismeðferðar má meðal annars finna í grískri heimspeki, þ.e. stóuspeki, þekkt er tilvitnun í Epiktetos (55-135 e.Kr.): Ekki eru það atburðir sem áhyggjum valda, heldur viðhorf manna við þeim.

Hugræn atferlismeðferð er gjarnan kennd við bandaríska geðlækninn Aaron T. Beck (1921-2021) sem var menntaður í sálgreiningu. Í rannsóknum sínum komst hann að því að aðferðir sálgreiningar gengju ekki upp við meðferð þunglyndis. Beck var undir áhrifum frá hinni svokölluðu hugrænu byltingu í sálfræði sem átti sér stað á árunum 1950-1970 en þó ekki síður undir áhrifum frá aðferðum atferlismeðferðar. Á grunni rannsókna sinna og meðferðarreynslu byggði Beck þá kenningu að það hvernig við hugsum, túlkum atburði og högum daglegu lífi ráði miklu um líðan okkar. Sálfræðingurinn Albert Ellis (1913–2007) hafði einnig áhrif á mótun hugrænnar atferlismeðferðar. Nemandi Becks, sálfræðingurinn David Burns útfærði hugsanaskekkjur á nákvæmari hátt í bók sinni Feeling Good árið 1980.

Hugræn atferlismeðferð var fyrst tekin í notkun á kerfisbundinn hátt á geðsviði Reykjalundar árið 1997. Í ljós kom að þeir sem fengu hugræna atferlismeðferð í einstaklingsmeðferð náðu marktækt betri árangri en aðrir sjúklingar, bæði hvað varðar þunglyndi, kvíða og vonleysi. [2]

Meðferð og áherslur

[breyta | breyta frumkóða]

Í hugrænni atferlismeðferð er áherslan á samspilið sem hlýtur að vera til staðar milli hugsana, líðunar, líkamlegs ástands og hegðunar. Þar er sérstaklega athugað hvernig hegðun okkar og hugsanir hafa áhrif á líðan og líkamlegt ástand. Þegar það hefur verið kortlagt eru hugsanaskekkjur endurmetnar og hegðuninni hnikað til betri vegar. Rannsóknir sýna að meirihluti þeirra sem sækja sér slíka sálfræðimeðferð fá nokkurn eða talsverðan bata.[3] Klínískar leiðbeiningar á Íslandi mæla með því að hugrænni atferlismeðferð sé fyrsta meðferðarúrræði við flestum gerðum sálræns vanda.[4]

Venjulega ver einstaklingurinn 1-3 klukkustundum á viku með meðferðaraðilanum, en auk þess eru honum settar fyrir ýmsar æfingar til að gera á milli tíma.[5] Flestir meðferðarvísar við algengum geðröskunum, eins og þunglyndi og kvíða, gera ráð fyrir 10-20 viðtölum. Meðferðinni er nú mest beitt af sálfræðingum þótt geðlæknar, heimilislæknar, hjúkrunarfræðingar og fleiri heilbrigðisstéttir hafi sótt sér þjálfun í hugrænni atferlismeðferð í vaxandi mæli á síðustu misserum.[6]

Í hugrænum hluta meðferðarinnar leitast meðferðaraðili og sjúklingur við að greina hvaða hugsanir og tilfinningar fylgja t.d. kvíðaköstum. Þessar hugsanir og tilfinningar eru síðan ræddar í samhengi "hugræns líkans" af ofsakvíða. Hugrænt líkan af ofsakvíða gerir ráð fyrir því að óæskileg hugarferli, sem kunna að vera ómeðvituð, hrindi af stað vítahring af óttaviðbrögðum.

Meðferðaraðili og sjúklingur ræða hvort og hvaða aðstæður sjúklingurinn forðast og meta hversu alvarleg áhrif það hefur á líf hans. Síðan vinna þeir í sameiningu að því að yfirstíga verstu hindranirnar. Sjúklingurinn nálgast aðstæður venjulega í nokkrum þrepum. Með breyttum hugsunarhætti öðlast einstaklingurinn smám saman betra vald yfir viðbrögðum sínum.

Ólíkt því sem tíðkast í sumum gerðum sálrænna meðferða er ekki lögð áhersla á fortíðina í hugrænni atferlismeðferð. Þess í stað er samræðum beint að erfiðleikum og framförum sjúklingsins á líðandi stundu og þeim eiginleikum sem hann þarf að tileinka sér.[7]

Hugsanaskekkjur

[breyta | breyta frumkóða]

Í hugrænni atferlismeðferð er oft unnið með hugsanaskekkjur. Algengar hugsanaskekkjur (samkvæmt meðferðabók Reykjalundar) eru: Allt-eða-ekkert, óréttmætar alhæfingar, neikvæð rörsýn, afskrifa hið jákvæða, skyndiályktanir, hugsanalestur, hrakspár, ýkjur og minnkun, hörmungarhyggja, tilfinningarök, ósanngjarn samanburður, uppnefni, sjálfmiðun, óraunhæf boð og bönn [8]

Félag um hugræna atferlismeðferð Geymt 21 nóvember 2015 í Wayback Machine

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Gagnsemi hugrænnar atferlismeðferðar við lyndis- og kvíðaröskunum hjá fullorðnumLæknablaðið, skoðað 5. mars, 2019.
  2. HAM, meðferðarhandbók Reykjalundur.is, skoðað 5. mars, 2019
  3. Hugræn atferlismeðferð Greining og meðerð, skoðað 5. mars, 2019.
  4. „Hugræn atferlismeðferð“. Mín líðan. Sótt 30. september 2020.
  5. Hvernig virkar hugræn atferlismeðferð og hvernig framkvæmir maður hana? Vísindavefur, skoðað 5. mars, 2019
  6. Hjúkrunarfræðingar og árangur hugrænnar atferlismeðferðar Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine Hjúkrun.is. Skoðað 5. mars, 2019.
  7. Hvernig virkar hugræn atferlismeðferð og hvernig framkvæmir maður hana? Vísindavefur, skoðað 5. mars, 2019
  8. Meðferðarhandbók -HAM Reykjalundur.is, skoðað 5. mars, 2019.