Fara í innihald

Kynlífsraskanir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kynlífsraskanir kallast þeir erfiðleikar og geðraskanir sem tengjast kynlífi.

Flestar kynlífsraskanir falla í eftirfarandi þrjá flokka:

  1. Kynhvöt
  2. Kynferðisleg örvun
  3. Fullnæging

Kynhvöt er flókið ferli sem felur í sér líffræðilegar, hugrænar og hegðunarlegar breytingar og sem er undir áhrifum frá samfélaginu. Kynferðisleg örvun er örvun einstaklings, líkamlegri og andlegri. Fullnæging er þegar líkamleg örvun nær hámarki, líffræðilegar breytingar verða og losun kynferðislegrar spennu.

Kynlífsröskun er tíð vandamál með kynferðislegan áhuga eða viðbragð sem veldur einstaklingnum vandræðum eða streitu. Þrátt fyrir að kynhvöt eigi sér orsök í líffræðilegu ferli (s.s. sykursýki) virðist kynlöngun manna harla misjöfn. Lítil kynlöngun einstaklings þarf þess vegna ekki að merkja það að eitthvað sé að. Einstaklingur sem einungis stundar kynlíf einu sinni í mánuði getur verið fullkomlega ánægður með það. Í þess háttar tilfellum er bara vonandi að makinn sé það einnig.

Alvarlegri er því ónæg kynferðisleg örvun. Ónæg kynferðisleg örvun birtist meðal annars í því að karlmaður nær ekki nægri stinningu fyrir mök eða getur ekki haldið henni meðan á mökum stendur. Í konum er vandamálið vanalega að konur nái ekki að blotna nægjanlega mikið, fyrir eða á meðan samförum stendur, sem veldur því að samfarir verða erfiðar eða sársaukafullar.

Vandræði við ris eða að blotna ekki nægjanlega mikið getur einskorðast við einn aðila en það getur einnig komið fyrir einstaklinginn alltaf. Algengast er að karlinn nái ekki að halda risi í sumum tilfella en möguleiki er að það gerist alltaf. Þessi vandamál aukast yfirleitt með aldrinum. Það að geta ekki haldið reisn er ástæða meiri en helmingi karlmanna sem leita til sérfræðings vegna kynlífsraskana.

Kynlífsraskanir geta verið fylgifyllar annarra raskana, s.s. þunglyndis eða kvíða. Einnig geta sum lyf haft áhrif á kynhvöt einstaklinga. Mýmargar ástæður eru fyrir kynlífsröskunum. Orsakarinnar getur verið að finna í persónuleika, uppeldi, skorti á upplýsingum eða ranghugmyndum eða misnotkun. Aðrar ástæður eru m.a. slæmt samband, framhjáhald, skortur á kynlífsreynslu, aldur, streita, kvíði og áfengi eða fíkniefni. Oft er um að ræða persónuleg vandamál, kvíða, skort á hæfni til samskipta eða einhver vandræði í sjálfu sambandi einstaklingsins. Rannsóknir beinast æ meira að frammistöðukvíða karlmanna. Frammistöðukvíði er þegar karlmaður er hræddur um að frammistaða hans verði ekki fullnægjandi og sá ótti veldur því að hún er það ekki.

Fullnæging - bæði kyn geta upplifað vandamál við fullnægingu. Karlar geta upplifað of brátt sáðlát en konan getur átt í erfiðleikum með að fá fullnægingu. Of brátt sáðlát karlmanns er sennilega algengasta form kynlífsraskana. Afleiðing þess fyrir karlmenn geta t.d. verið tilfinning um vanmátt á kynlífssviðinu. Seinkað sáðlát er hins vegar þegar karlmaðurinn á í erfiðleikum með að fá sáðlát. Bæði getur verið um að kenna líffræðilegum þáttum og andlegum. Dæmi um það er ef karlmaðurinn hefur tvíræðar tilfinningar til hins aðilans eða þá að orsakanna getur verið að leita í uppeldi viðkomandi, s.s. ef hann hefur verið alinn upp við að kynlíf sé eitthvað „óheilbrigt“.

Helsta röskun kvenna er fullnægingarröskun, þ.e. vandamál við að fá fullnægingu þrátt fyrir kynferðislega spennu. Fyrir konur virðist það algengara að vandræði við að fá fullnægingu sé fyrir lífstíð fremur en að hún sé tímabundin. Það er með öðrum orðum erfitt fyrir konu sem hefur náð að fá eðlilegar fullnægingar að snú því við. Það getur þó gerst, s.s. ef henni hafi verið nauðgað.

Annað dæmi um kynlífsröskun er dyspareunia þar sem einstaklingur finnur fyrir verkjum í kynfærum fyrir, á meðan eða eftir samfarir. Konur geta einnig upplifan vaginismum þar sem ósjálfráðir kippir í ytri hluta legganga gerir samfarir erfiðar.

Þegar hugað er að kynlífsröskunum verður að hafa það í huga að það sem telst eðlilegt fyrir einn aðila getur verið röskun fyrir annan. Fólk upplifir kynlíf á mismunandi hátt og kynlöngun og tími fullnægingar er mismunandi. Einnig verður að hafa það í huga að vandamál í kynlífinu geta verið af öðrum toga en að ofan er getið. Sem dæmi geta geðsjúkdómar, s.s. þunglyndi og kvíði haft mikil, og oft tímabundin, áhrif á frammistöðu einstaklings og er þá að sjálfsögðu ákjósanlegast að beina meðferð að þeim sjúkdómum áður en ráðist er í kynlífsraskanir. Ef einstaklingur greinist með sjúkdóm á ási I í DSM-IV fær hann enda ekki greiningu á kynlífsröskun.

Meðferð við kynlífsröskunum

[breyta | breyta frumkóða]

Meðferð við kynlífsröskunum byggir yfirleitt á samþættingu sálaraflskenninga, hugrænnar atferlismeðferðar og fjölskyldumeðferðar. Eins og svo oft reynist það mörgum erfitt að leita sér meðferðar við vandamálum í kynlífinu og eru án efa nokkrir þættir sem því valda. Það er án efa erfitt fyrir einstaklinga að viðurkenna að hann eigi við vandamál að stríða á þessu sviði og eins getur einstaklingur kosið að hunsa vandamálið í þeirri von að það lagist. Vegna þessa er það auðvitað mikilvægt að meðferðaraðili hlusti vel á það sem einstaklingurinn segir og sýnir því skilning. Nauðsynlegt er að fá eins ítarlegar upplýsingar og mögulegt er, s.s. um það hvenær vandamálið hófst, hvenær það kemur fyrir, áhrif þess og það hvaða orsakir einstaklingurinn sjálfur telur vera.

Meðferð byggir oft á því að par sé saman í meðferð (þar sem um par er að ræða). Ástæða þess er að vandamáli getur átt upptök sín í samskiptum aðilanna, að það er líklegra til að leysast með góðri samvinnu auk þess sem það hefur að sjálfsögðu áhrif á báða aðilana. Þannig er nauðsynlegt að fá viðhorf hins aðilans við vandamálinu, hvaða áhrif það hefur á hann og hvaða orsök hann telur fyrir því. Þó getur stundum verið nauðsynlegt fyrir meðferðaraðila að hitta annan aðilann í einu t.d. til að fá upplýsingar um atriði sem hann getur ekki rætt við þegar hinn er viðstaddur, s.s. framhjáhald eða kynferðisóra. Í sumum tilfellum getur annar aðilinn einnig neitað að taka þátt í meðferð með hinum aðilanum. Meðferð byggir vanalega á því að einstaklingum er kennd samskiptatækni, reynt er að minnka áhyggjur og kvíða þeirra, s.s. frammistöðukvíða og að beina athyglinni að hinum aðilanum og þeirri ánægju sem hægt er að fá út úr kynlífi.

Atferlis- og hugrænar meðferðir

[breyta | breyta frumkóða]

Meðferð Masters og Johnson er ekki svo ólík meðferðum atferlissinna. Atferlissinnar búa oft til þrepakerfi þar sem einstaklingnum er leyft að snerta aðeins ákveðna líkamshluta fyrst og svo er fleirum bætt við. Margir atferlissinnar hafa jafnframt tekið upp aðferðir Masters og Johnson og þróað þær áfram innan sinna marka, s.s. með herminámi. Auk þess hafa margir þeirra tekið slökun inn í meðferðir. Merferðaraðilar eru auk þess farnir að taka aðra þætti inn í meðferðir. Dæmi um það eru kynlífsórar manna. Kynlífsórar geta enda gegnt mikilvægu hlutverki í því að örva fólk og gera því ljóst hvað það vill í kynlífinu.

Árangur kynlífsmeðferðar

[breyta | breyta frumkóða]

Þeir rannsakendur sem hafa kannað árangur kynlífsmeðferða hafa fengið afar mismunandi niðurstöður. Vandamálið liggur ekki hvað síst í því að skilgreining á árangri er oft ábótavant of fáar fylgnirannsóknir eru gerðar. Þetta felur að sjálfsögðu í sér að samanburður á meðferðum er varla til staðar og því erfitt að ákvarða hvaða meðferð hentar best.

Kynlífsraskanir

[breyta | breyta frumkóða]

Helsta einkenni þessa flokks er röskun á kynferðislegri virkni. Þetta getur falið í sér vanhæfni til að fá fullnægingu, sársauka við kynmök, óbeit á kynlífi eða ýkt viðbrögð eða áhugi á kynlífi. Útiloka verður að lyf valdi röskuninni fyrir greiningu og einkennin verða að hafa áhrif á daglega virkni einstaklingsins.

Raskanir tendar kynlífslöngun:

  • Sexual Aversion Disorder
    • Einstaklingar með þessa röskun upplifa enga eða skerta kynlífslöngun án annarra mental disorders
  • Hypoactive Sexual Desire Disorder
    • Einstaklingar með þessa röskun upplifa enga eða skerta kynlífslöngun án annarra mental disorders

Raskanir tengdar örvun:

  • Female Sexual Arousal Disorder
    • Konur með þessa röskun upplifa litla getu til að fá eða viðhalda bleytu sem annars kemur fram við örvun.
  • Male Erectile Disorder
    • Menn með þessa röskun upplifa litla getu til að ná eða viðhalda nægjanlegri reisn.

Fullnægingar röskun:

  • Fullnægingarröskun kvenna
    • Konur með þessa röskun upplifa litla eða enga getu til að fá fullnægingu
  • Fullnægingarröskun karla
    • Karlar með þessa röskun upplifa litla eða enga getu til að fá fullnægingu.
  • Of brátt sáðlát
    • Karlmenn með þessa röskun upplifa fullnægingu með sáðláti fyrir, við eða stuttu eftir að limur þeirra hefur verið settur inn í leggöng og fyrr en þeir bjuggust við því.

Raskanir tengdar sársauka:

  • Dyspareunia
    • Karlar og konur með þessa röskun upplifa annars óútskýrða verki í kynfærum fyrir, við eða eftir samfarir.
  • Vaginismus
    • Konur með þessa röskun upplifa annars óútskýrða og endurtekna eða viðvarandi kippi í perineal vöðvum í kringum ytri þriðjung legganga tengdum því að eitthvað fari inn í leggöngin.

Kynlífsröskun vegna almenns læknisfræðilegs ástands

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar það eru sannanir fyrir því að almennt læknisfræðilegt ástand er eina lífeðlisfræðilega ástæða kynlífsraskana er þessi greining viðeigandi.

Meðal kynlífsraskana vegna almenns læknisfræðilegs ástands eru:

  • Kynlífsröskun af völdum áfengis eða (eitur)lyfja