Paul Biya
Paul Biya | |
---|---|
Forseti Kamerún | |
Núverandi | |
Tók við embætti 6. nóvember 1982 | |
Forsætisráðherra | Bello Bouba Maigari Luc Ayang Sadou Hayatou Simon Achidi Achu Peter Mafany Musonge Ephraïm Inoni Philémon Yang Joseph Ngute |
Forveri | Ahmadou Ahidjo |
Forsætisráðherra Kamerún | |
Í embætti 30. júní 1975 – 6. nóvember 1982 | |
Forseti | Ahmadou Ahidjo |
Forveri | Fyrstur í embætti |
Eftirmaður | Bello Bouba Maigari |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 13. febrúar 1933 Mvomeka'a, Ntem, franska Kamerún |
Stjórnmálaflokkur | RDPC |
Maki | Jeanne-Irène Bika (g. 1961; d. 1992) Chantal Vigouroux (g. 1994) |
Börn | 2 |
Háskóli | École nationale d'administration Institut d'études politiques de Paris |
Undirskrift |
Paul Biya (f. 13. febrúar 1933 undir nafninu Paul Barthélemy Biya'a bi Mvondo) er kamerúnskur stjórnmálamaður sem hefur verið forseti Kamerún frá árinu 1982. Hann var áður forsætisráðherra landsins frá 1975 til 1982. Hann er næstþaulsetnasti sitjandi forseti í heimi (á eftir Teodoro Obiang í Miðbaugs-Gíneu) og samfellt hefur hann setið lengur við völd en nokkur sitjandi þjóðarleiðtogi sem ekki er af konungaættum. Biya er leiðtogi Lýðræðissamkundu kamerúnskrar alþýðu (fr. Rassemblement démocratique du Peuple Camerounais eða RDPC). Hann var kjörinn forseti í sjöunda skiptið árið 2018.[1]
Bakgrunnur
[breyta | breyta frumkóða]Biya fæddist í þorpinu Mvomeka'a, sem er um 20 km norðaustan við Sangmélima í þáverandi franska Kamerún. Hann gekk í École nationale d'administration í París og útskrifaðist þaðan með gráðu í alþjóðasamskiptum árið 1961. Biya kvæntist Jeanne-Irène Biya en hún lést árið 1992. Hann kvæntist í annað skipti árið 1994, konu að nafni Chantal Biya, og á með henni tvö börn.
Stjórnmálaferill
[breyta | breyta frumkóða]Biya varð embættismaður í Kamerún á sjöunda áratugnum eftir að landið hlaut sjálfstæði frá Frakklandi og kleif metorðastigann á stjórnartíð forsetans Ahmadou Ahidjo. Árið 1964 varð hann framkvæmdastjóri á skrifstofu menntamálaráðuneytisins og næsta ár varð hann aðalritari ráðuneytisins. Árið 1967 varð hann framkvæmdastjóri í borgaralegu ráðuneyti forsetans og árið 1968 varð hann jafnframt aðalritari hjá skrifstofu forsetaembættisins. Síðar sama ár var hann útnefndur ráðherra og í júní 1970 var hann hækkaður í tign. Eftir að Kamerún var gert að einingarríki árið 1972 varð hann forsætisráðherra Kamerún þann 30. júní 1975. Í júní 1979 voru tekin upp lög sem kváðu á um að forsætisráðherrann tæki við forsetaembættinu við afsögn forsetans. Ahmadou Ahidjo lýsti yfir afsögn sinni úr forsetaembætti þann 4. nóvember 1982 og Biya tók við af honum sem forseti tveimur dögum síðar.[2]
Þar sem Biya er kristinn og frá suðurhluta Kamerún kom það mörgum í opna skjöldu að Ahidjo hefði valið hann sem eftirmann sinn, en Ahidjo var sjálfur múslimi og frá norðurhluta landsins. Eftir að Biya tók við sem forseti sat Ahidjo áfram sem leiðtogi stjórnarflokksins, Þjóðarbandalags Kamerún (UNC). Biya hlaut sæti í miðstjórn og framkvæmdastjórn flokksins og var kjörinn varaformaður flokksins. Þann 11. desember 1982 fékk hann umboð til að leiða flokkinn í fjarveru Ahidjos. Á fyrstu stjórnarárum Biya héldu þeir Ahidjo tryggð hver við annan en árið 1983 kom til ágreinings milli þeirra. Ahidjo var hrakinn í útlegð til Frakklands og sakaði Biya um valdníðslu og samsæri gegn sér. Þeir sættust aldrei þrátt fyrir milligöngu nokkurra erlendra þjóðarleiðtoga. Þegar Ahidjo sagði af sér sem flokksleiðtogi var Biya kjörinn til að taka við af honum þann 14. september 1983.[3]
Í nóvember 1983 kunngerði Biya að næstu forsetakosningar yrðu haldnar 14. janúar 1984, en áður hafði staðið til að halda þær árið 1985. Biya var eini frambjóðandinn í kosningunum og var kjörinn með 99,98 % atkvæðanna.[3] Í febrúar 1984 var réttað yfir Ahidjo að honum fjarstöddum og hann dæmdur til dauða fyrir að hafa reynt að fremja valdarán árið 1983. Biya lét milda dóminn í lífstíðarfangelsi, sem mörgum þótti merki um veikleika.[4]
Kamerúnski herinn gerði misheppnaða valdaránstilraun gegn Biya þann 6. apríl 1984 eftir að hann tók ákvörðun daginn áður um að leysa upp lýðveldisvarðliðið (fr. Garde républicaine) og skipta meðlimum þess milli annarra deilda hersins.[3] Mat á dauðsföllum í valdaránstilrauninni eru á bilinu 71[4] upp í allt að 1.000 manns.[3] Flestir uppreisnarmennirnir voru múslimar frá norðurhluta landsins og margir litu á uppreisnina sem tilraun til að endurheimta yfirburði þessa hóps. Biya lagði hins vegar í kjölfarið áherslu á samheldni þjóðarinnar og valdi að kenna múslimum ekki um uppreisnina.[3][4] Flestir gáfu sér að Ahidjo hefði staðið á bak við valdaránstilraunina og líklega hefði Biya haft veður af henni og hefði leyst upp lýðveldisvarðliðið til að neyða uppreisnarmennina til að láta til skarar skríða fyrr en þeir höfðu áætlað. Þetta kann að hafa stuðlað að því að valdaránið mistókst.[3][4]
Árið 1985 var stjórnarflokkur landsins endurnefndur Lýðræðissamkunda kamerúnskrar alþýðu (fr. Rassemblement démocratique du Peuple Camerounais eða RDPC) og Biya var kjörinn flokksleiðtogi. Hann var jafnframt endurkjörinn forseti Kamerún þann 24. apríl 1988.
Biya gerði nokkrar tilraunir til að opna stjórnarfar Kamerún, sem leiddi til þess að stjórnarandstöðuflokkar voru leyfðir árið 1990. Biya vann fyrstu forsetakosningar Kamerún eftir innleiðingu fjölflokkakerfisins sem voru haldnar þann 11. október 1992. Hann hlaut 40% atkvæðanna en John Fru Ndi, frambjóðandi jafnaðarmanna, hlaut um 36% og Bello Bouba Maigari 19%.[5] Stjórnarandstaðan mótmælti niðurstöðu kosninganna, sem hún taldi að hefðu einkennst af kosningasvindli.[6] Í forsetakosningum í október 1997, sem stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir sniðgengu, var Biya aftur endurkjörinn með 92,6 prósentum atkvæðanna.[5]
Biya var endurkjörinn til annars sjö ára kjörtímabils í forsetakosningum þann 11. október 2004, þar sem hann fékk 70,92 % atkvæða samkvæmt opinberum talningum.[5] Stjórnarandstaðan vændi hann aftur um að hafa haft rangt við.
Eftir endurkjör sitt árið 2004 mátti Biya ekki bjóða sig fram á ný samkvæmt stjórnarskrá Kamerún sem tekin hafði verið upp árið 1996. Í nýársávarpi sínu árið 2008 tilkynnti Biya hins vegar að hann vildi láta breyta stjórnarskráni til að heimila sér að bjóða sig aftur fram árið 2011 og að takmarkanir á embættistíð forsetans væru ólýðræðislegur hemill á þjóðarviljanum.[7] Tilkynningin um fyrirætlanir Biya leiddu til ofbeldisfullra mótmæla í febrúar 2008. Þrátt fyrir þetta féllst kamerúnska þingið á að breyta stjórnarskránni í apríl 2008 og nema úr gildi hámarksfjölda á kjörtímabilum forsetans. Þar sem flokkur Biya var með meirihluta á þinginu voru breytingarnar samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta, 157 atkvæðum gegn fimm, auk þess sem 15 þingmenn jafnaðarmanna sniðgengu atkvæðagreiðsluna.[8]
Biya var endurkjörinn í forsetakosningum ársins 2011 með 78 % atkvæðanna.[5] Stjórnarandstaðan kærði kosningarnar til Hæstaréttar en kröfu hennar um ógildingu þeirra var vísað frá.[9]
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Kristján Róbert Kristjánsson (6. nóvember 2018). „Biya byrjar sjöunda kjörtímabilið“. RÚV. Sótt 3. desember 2022.
- ↑ Précidence de la République du Cameoun - Le Président - Biographie, sótt 3. desember 2022.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 Milton H. Krieger og Joseph Takougang: African State and Society in the 1990s: Cameroon's Political Crossroads (2000), Westview Press, side 65–74.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 4,3 Jonathan C. Randal, Washington Post - Tales of Ex-Leader's Role In Revolt Stun Cameroon, sótt 3. desember 2022.
- ↑ 5,0 5,1 5,2 5,3 African Elections Database - Elections in Cameroon, sótt 3. desember 2022.
- ↑ [John Mukum Mbaku, Decolonization, Reunification and Federation in Cameroon, in The Leadership Challenge in Africa: Cameroon Under Paul Biya (2004), red. John Mukum Mbaku og Joseph Takougang, side 34.]
- ↑ Afrik.com - Paul Biya va modifier la Constitution du Cameroun, sótt 3. desember 2022.
- ↑ Gaboneco.com - Cameroun: adoption d'une révision constitutionnelle controversée Geymt 18 janúar 2012 í Wayback Machine sótt 3. desember 2011.
- ↑ VG.no - Kameruns president gjenvalgt for sjette gang, sótt 3. desember 2022.
Fyrirrennari: Ahmadou Ahidjo |
|
Eftirmaður: Enn í embætti | |||
Fyrirrennari: Fyrstur í embætti |
|
Eftirmaður: Bello Bouba Maigari |