Rýtingurinn í bakið
Rýtingurinn í bakið (þýska: Dolchstoßlegende) var skýringarsögn um ástæður ósigurs Þjóðverja í Fyrri heimsstyrjöld sem þýskir hægrimenn héldu mjög á lofti eftir 1918. Samkvæmt þessari sögu voru ástæður ósigursins ekki hernaðarlegir yfirburðir Bandamanna heldur svik á heimavígstöðvunum; einkum þeirra lýðveldissinna sem kröfðust afsagnar keisarans, þeirra sem undirrituðu Versalasamningana („Nóvemberglæpinn“) og stofnenda Weimar-lýðveldisins. Samkvæmt sögunni voru þessir aðilar marxistar, sósíaldemókratar og gyðingar.
Eftir stríð var það fyrst þjóðernissinnaði herforinginn Erich Ludendorff sem setti fram þessa skýringu á ósigri þýska hersins. Nasistar héldu sögunni um rýtinginn í bakið mjög á lofti. Þegar þeir komust til valda árið 1933 varð þetta opinber skýring á ósigrinum 1918.