Sarmatar
Sarmatar (úr fornírönsku: Sarumatah, „bogmaður“) voru írönsk þjóð sem fluttist frá Mið-Asíu til Úralfjalla á 5. öld f.Kr. og settust að lokum að í Kákasus, Úkraínu og austurhluta Balkanskaga. Flestar fornminjar sem tengjast Sarmötum hafa fundist þar sem nú er Krasnodarfylki í Rússlandi við rætur Kákasusfjalla.
Sarmatar voru ein þeirra þjóða sem stöðvuðu framrás Rómaveldis til austurs. Þeir voru öflugasta ríkið við Svartahaf þar til Gotar tóku að sækja austur á bóginn. Innrás Húna á 4. öld batt síðan endi á ríki Sarmata. Ein grein þeirra, Alanar, eru eftir það nefndir í rómverskum heimildum ýmist sem bandamenn Germana eða Húna. Ossetar nútímans rekja uppruna sinn til Alana, en nöfn í grískum áletrunum frá strönd Svartahafs benda til þess að tungumál þeirra hafi verið norðausturíranskt mál, skylt sogdísku og ossetísku.