Fara í innihald

Shijiazhuang

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd frá Shijiazhuang borg í Hebei héraði í Kína.
Frá Shijiazhuang borg. Árið 2020 bjuggu á stórborgarsvæði Shijiazhuang um 11,3 milljónir manna.
Staðsetning Shijiazhuang í Hebei héraði í Kína.
Staðsetning Shijiazhuang í Hebei héraði í Kína.
Landakort sem sýnir legu Shijiazhuang borgar í Hebei héraði í Kína.
Kort af legu Shijiazhuang borgar (gulmerkt) í Hebei héraði í Kína.

Shijiazhuang (kínverska: 石家庄; rómönskun: Shíjiāzhuāng; Shih-chia-chuang), er höfuðborg og stærsta borg Hebei héraðs í norðurhluta Alþýðulýðveldisins Kína. Hún er stjórnsýslu-, efnahags- vísinda- menningar- og samgöngumiðstöð héraðsins. Borgin er í suð-miðhluta héraðsins, norðvestur af Norður-Kína sléttunni. Hún situr við suðurbakka Hutuo-fljóts og við rætur Taihang-fjalla í vestri. Þetta er ung borg, formlega stofnað árið 1939 og fékk nafnið Shijiazhuang árið 1947 og titilinn héraðshöfuðborg árið 1968. Þessi mikla iðnaðarborg er ein megin flutningamiðstöð Kína. Íbúðafjölgun þessarar risaborgar hefur verið gríðarleg síðustu áratugi. Árið 2020 bjuggu á stórborgarsvæði Shijiazhuang um 11,3 milljónir manna.

Staðsetning

[breyta | breyta frumkóða]
Mynd er sýnir Fenglong fjöll.
Shijiazhuang borg hvílir við rætur Fenglong fjalla.

Shijiazhuang er staðsett suður af Hutuo-fljóti í vestur-miðhluta Hebei héraðs, við jaðar Norður-Kína sléttunnar og austur af rótum Taihang-fjalla, fjallgarði sem nær yfir 400 kílómetra frá norðri til suðurs.

Borgin er um 266 kílómetra suðvestur af Beijing og liggur í norðri við borghéraðið Tianjin. Hún liggur einnig að Bóhaíhafi í austri og er við Taihang fjöll í vestri.

Borgin er 14.060 ferkílómetrar að flatarmáli.

Snemma á síðustu öld var risaborgin Shijiazhuang lítið þorp sem byggðist upp við lagningu járnbrauta og hinna miklu þjóðfélagsbreytinga í Kína við flutninga fólks úr dreifbýli í þéttbýli. Borgin er tiltölulega ung; Til hennar var fyrst formlega stofnað árið 1939 og fékk hún nafnið Shijiazhuang árið 1947 og titilinn héraðshöfuðborgin árið 1968.

Við byrjun 20. aldar var Shijiazhuang einungis lítið þorp undir Luquan sýslu, suður af Hutuo-fljóti í Hebei héraði. Vöxtur þéttbýlis hófst árið 1906 við lagningu járnbrautar frá Beijing til Hankou (nú Wuhan borg). Þessi samgöngubót örvaði viðskipti, ekki síst með landbúnaðarafurðir. Ári síðar varð bærinn vegamót nýrrar járnbrautarlínu, sem liggur vestur frá Zhengding (nú undir Shijiazhuang) til Taiyuan borgar í miðju Shansi héraði. Þessi nýja tenging breytti bænum frá staðbundnum markaði og söfnunarstöð í mikilvæga samskiptamiðstöð á leiðinni frá Beijing og Tianjin til Shansi. Varð brautin aðal farvegur kolaflutninga frá Shansi héraði. Enn styrktust tengingar þegar járnbrautin frá Taiyuan borg var lengd suðvestur til Shaanxi héraðs. Á sama tíma varð borgin einnig miðstöð umfangsmikils vegakerfis.

Fyrir síðari heimsstyrjöldina var Shijiazhuang stór járnbrautarbær og verslunar- og söfnunarstaður fyrir Shansi og héruðin fyrir vestan, sem og fyrir landbúnaðarafurðir Norður-Kína sléttunnar. Við lok stríðsins breyttist borgin enn meir þegar hún þróaðist í iðnaðarborg.

Á árunum eftir 1949 fór iðnvæðing borgarinnar á fullt skrið. Íbúafjöldi meira en þrefaldaðist á áratugnum 1948–58. Textíl iðnaður varð umfangsmikill ásamt vinnsla annarra landbúnaðarafurða. Á sjöunda áratug síðustu aldar varð efnaiðnaður umfangsmikill, meðal annars áburðarframleiðsla. Einnig hófst framleiðsla véla, fyrir landbúnað og námuvinnslu. Að auki byggðist upp framleiðsla lyfja, unna matvara og byggingarefna.

Afleiðingar mikillar íbúafjölgunar byggðri á stórtækri iðnvæðingu og uppbyggingu innviða, hefur einnig þýtt mikla loftmengun í borginni. Á árunum 2008 til 2011 hefur borgin verið endurskipulögð og grænum svæðum fjölgað. Þá hafa ný lestarstöð, flugvöllur og snarlestarkerfi hafa verið opnuð.

Mynd er sýnir Menningartorgið í Shijiazhuang borg.
Menningartorgið í Shijiazhuang borg.

Shijiazhuang er ung risvaxin nútímaborg. Meðal fjölbreytts iðnaðar er í borginni eru lyfjaiðnaður, framleiðsla ýmissa véla og bifreiða. Þá er þar margskonar efnaiðnaður, flutningaþjónusta og upplýsingtækni.

Í borgarjöðrunum er góð aðstaða til landbúnaðar, einkum ræktun bómulla, peru, daðla og valhneta. Í borginni er mikil framleiðsla mjólkurafurða. Shijiazhuang borg tilheyrir svokölluðu „Bohai Rim efnahagssvæðinu“, borgarþéttbýlis þungaiðnaðar, hátækni og framleiðslu. Bohai Rim iðnbeltið liggur umhverfis borghéraðið Tianjin. Svæðið nær til héraðanna Hebei, Liaoning og Shandong og borghéraðsins Beijing við Bóhaíhafi

Mikli iðnvöxtur stóriðju og kolavera hefur þýtt gríðarlega loftmengun. Shijiazhuang telst vera ein mengaðasta borg veraldar.

Lýðfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Mynd er sýnir Zhongshan stræti í Shijiazhuang borg.
Frá Zhongshan Vestur stræti í Shijiazhuang.

Shijiazhuang er borg gríðarlegrar fólksfjölgunar farandfólks sem streymt hefur til borgarinnar alls staðar frá Kína. Á aðeins sex áratugum hefur íbúum fjölgað meira en 20 falt.

Í borginni voru einungis um 120.000 íbúar árið 1947, þegar hún varð ein fyrsta borgin sem kínverskir kommúnistar náðu frá lýðveldisinnum. Við stofnun Alþýðulýðveldisins árið 1949, fjölgaði íbúum um 270.000 manns. Árið 1953 voru íbúar 320.000 og 650.000 árið 1960. Í glundroða menningarbyltingarinnar árið 1968 varð hún tilnefnd höfuðborg Hebei og það jók enn á íbúafjölgun. Árið 1980 fór fjöldinn yfir milljóna markið og enn jókst fjöldinn.

Árið 2020 þegar síðasta manntal var gert í Kína, var íbúafjöldi borgarkjarnans 6.230.709 en íbúafjöldi undir lögsögu borgarinnar var 11.235.086.

Menntun og vísindi

[breyta | breyta frumkóða]
Mynd frá aðalinngangi Kennaháskóla Hebei í Shijiazhuang borg.
Við Kennaháskóla Hebei í Shijiazhuang borg.

Í borginni eru margar háskólastofnanir og rannsóknarstofnanir. Þar á meðal er hinn virti Shijiazhuang Tiedao háskóli, sem stofnaður var árið 1950 og telst í dag vera einn lykilháskóla Kína. Hann er sérhæfður í samgönguvísindum, verkfræði og upplýsingatækni.

Meðal annarra háskóla má nefna Kennaraháskóla Hebei (Hebei Normal University) sem stofnaður var 1902, og hinn virti Læknaháskóli Hebei sem stofnaður var árið 1894.

Mynd frá Snarlestarstöð í Beiguang í Shijiazhuang borg í Kína.
Snarlestarstöð í Beiguang í Shijiazhuang borg.

Shijiazhuang er samgönguborg. Hún er samgöngumiðstöð með járnbrautarlínum frá Shijiazhuang til Dezhou borgar Shangdong héraðs og hraðbrautum norður til Beijing, vestur til Taiyuan, suður til Zhengzhou borgar Henan héraðs og austur að Huanghua hafnarborgar Cangzhou við Bóhaíhafi.

Norðaustur af borginni er Shijiazhuang Zhengding alþjóðaflugvöllurinn. Hann er tengdur háhraðalestum sem fara á milli borganna Beijing og Guangzhou.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]