Trier
Trier | |
---|---|
Sambandsland | Rínarland-Pfalz |
Flatarmál | |
• Samtals | 117,13 km2 |
Hæð yfir sjávarmáli | 137 m |
Mannfjöldi | |
• Samtals | 112.000 (2.019) |
• Þéttleiki | 916/km2 |
Vefsíða | www.trier.de |
Trier er háskólaborg í þýska sambandslandinu Rínarlandi-Pfalz og er með 112 þúsund íbúa (2019). Trier er með allra elstu borgum Þýskalands og var stofnuð af Rómverjum. Ýmis mannvirki þar í borg eru á heimsminjaskrá UNESCO.
Lega
[breyta | breyta frumkóða]Trier liggur við ána Mósel nær vestast í sambandslandinu, aðeins um 8 km fyrir vestan landamærin að Lúxemborg. Næstu borgir eru Lúxemborg til suðvesturs (30 km), Saarbrücken til suðurs (60 km) og Koblenz til norðausturs (80 km).
Skjaldarmerki
[breyta | breyta frumkóða]Skjaldarmerki Trier sýnir Pétur postula með stóran lykil á rauðum grunni. Pétur er verndardýrlingur borgarinnar síðan á 12. öld. Merki þetta hefur verið nær óbreytt síðan á 15. öld.
Orðsifjar
[breyta | breyta frumkóða]Borgin hét upphaflega Augusta Treverorum á tímum Rómverja. Fyrri hlutinn var til heiðurs Ágústusar keisara. Seinni hluti heitisins er dregið af keltneska þjóðflokknum treveri sem bjó þar í grennd. Á tímum Claudiusar keisara var heitið lengt í Colonia Augusta in Treverum. Úr Treverum verður svo Treviris og loks Trier.[1]
Saga Trier
[breyta | breyta frumkóða]Rómverjar
[breyta | breyta frumkóða]Það voru Rómverjar sem reistu borgina Trier 16 f.Kr. Þeir höfðu áður, 30 f.Kr., reist herlager á svæðinu, en höfðu yfirgefið það aftur. Borgin varð höfuðborg skattlandsins Belgica. Um miðja 3. öld var biskupsstóll stofnaður í Trier, en hann er sá elsti á þýskri grundu. Fyrsti biskupinn hét Eucharius. Trier varð keisaraborg Vestrómverska ríkisins síðla á 3. öld. Þar sátu keisarar eins og Konstantínus II., Valentiníanus I., Gratíanus, Magnus Maximus og Valentinanus II. Á þessum tíma var Trier stærsta borg Evrópu norðan Alpa. En snemma á 5. öld fóru germanir að flæða yfir lönd Rómverja. 413 og 421 hertóku frankar Trier og rændu hana. Atli Húnakonungur gerði slíkt hið sama 451. 475 náðu frankar borginni endanlega á sitt vald. Eftir það varð hún hluti af frankaríkinu mikla.
Miðaldir
[breyta | breyta frumkóða]Árið 882 eyddu víkingar borginni nær algjörlega, en þeir höfðu sigld upp eftir Rín og Mósel. Trier varð ekki hluti af þýska ríkinu fyrr en 925, en þá var Hinrik I keisari þar. 1212 veitti Otto IV keisari borginni fríborgarstatus. En Trier var ávallt sterkt biskupssetur. Erkibiskuparnir í Trier voru kjörfurstar í ríkinu og náðu þeir veraldlegum yfirráðum yfir borginni 1309. Þar með missti Trier fríborgarstatus sinn. Þetta fyrirkomulag hélst allt til tíma Napoleons. Trier var höfuðborg kjörfurstadæmisins, en þó bjuggu biskuparnir ekki þar fyrr en snemma á 16. öld. 1473 hittust Friðrik III keisari og Karl hinn kjarkmikli frá Búrgúnd á ráðstefnu í borginni. Sama ár var háskóli stofnaður í borginni sem var starfræktur allt þar til Napoleon lét loka honum. 1512 var haldið mikið ríkisþing í borginni.
Frakkar
[breyta | breyta frumkóða]Í 30 ára stríðinu var Trier hernumin tvisvar. Fyrst voru það Spánverjar 1634 en síðar voru það Frakkar 1645. Í 9 ára stríðinu voru Frakkar aftur á ferðinni. Erkibiskupinn og kjörfurstinn í Trier, Karl Kaspar, reyndi eftir fremsta megni að haldast hlutlaus í því stríði. Engu að síður gerðu Frakkar umsátur um borgina 1673 og gerðu árásir á hana. Hún féll þó ekki fyrr en eftir níu mánuði. Frakkar víggirtu borgina gríðarlega en urðu frá að hverfa 1675. Frakkar hernámu borgina á nýjan leik 1684 og 1688 og aftur 1702 og 1705 í spænska erfðastríðinu. Frakkar voru enn á ferðinni 1794 en þá hernam franskur byltingarher borgina. 1801 var borgin innlimuð Frakklandi og fengu íbúarnir við það franskar ríkisborgararétt. Við það leystist kjörfurstadæmið Trier upp. Frakkar lokuðu auk þess öllum klaustrum, en einnig háskólanum. Mörg klaustranna voru rifin, öðrum var umbreytt og fengu þau nýtt hlutverk. 6. janúar 1814 náðu Prússar að frelsa borgina og hrekja Frakka á brott. Vínarfundurinn úrskurðaði árið eftir að borgin skyldi tilheyra Prússlandi. Það gekk á ýmsu með prússneska stjórn, enda var borgin enn rammkaþólsk.
Nýrri tímar
[breyta | breyta frumkóða]Borgarmúrar Trier fengu að standa langt fram á 19. öld. Helsta tekjulind borgarinnar voru hveiti- og sláturskattar. Flytja þurfti allar slíkar vörur um borgarhliðin allt til 1875. Þegar skattakerfinu var breytt voru nær allir borgarmúrar rifnir til að skapa pláss fyrir nýjar byggingar. Prússar yfirgáfu borgina eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri 1918. Frakkar hernámu hana þá enn einu sinni og héldu henni til 1930. Í heimstyrjöldinni síðari varð Trier fyrir nokkrum loftárásum. Þær verstu urðu í desember 1944, en þá vörpuðu Bandaríkjamenn og Bretar rúmlega 1.500 tonnum af sprengjum yfir borgina. Borgin féll í hendur bandamönnum 2. mars 1945 án teljandi bardaga. Síðan 1946 er Trier hluti af nýstofnuðu Rínarlandi-Pfalz. 1970 var háskólinn endurstofnaður. 1984 voru mikil hátíðarhöld í borginni í tengslum við 2000 ára afmæli Trier. 1986 voru ýmsar byggingar í borginni settar á heimsminjaskrá UNESCO, þar á meðal gamlar rómverskar byggingar (til dæmis Porta Nigra og baðhúsin), dómkirkjan og frúarkirkjan.
Íþróttir
[breyta | breyta frumkóða]Aðalknattspyrnulið borgarinnar er Eintracht Trier, en það leikur í neðri deildum. Kvennaliðið í handbolta leikur í 1. deild og varð þýskur meistari 2003. Körfuboltalið karla, TBB Trier, leikur í 1. deild og varð bikarmeistari 1998 og 2001. Hafnaboltaliðið Trier Cardinals varð þýskur meistari 1995 og 1996. Síðan 2000 fer rallakstur fram í og við Trier sem gefur stig á HM í rallakstri.
Viðburðir
[breyta | breyta frumkóða]- Brot & Spiele er heiti stærstu rómversku leikum í Þýskalandi. Þeir fara árlega fram í ágúst í Trier síðan 2002. Aðalvettvangur leikanna er gamli rómverski leikvangurinn. Þar fara meðal annars fram skylmingaleikir, ganga rómverskra hermanna og fleira. Í tengslum við þetta er reist rómverskt þorp þar sem hægt er að sjá alls konar handiðnir Rómverja. Auk þess fara fram tónleikar, dans og ýmislegt annað í tengslum við menningu Rómverja.
Vinabæir
[breyta | breyta frumkóða]Trier viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:
|
|
Frægustu börn borgarinnar
[breyta | breyta frumkóða]- (1818) Karl Marx sósíalisti og heimspekingur
- (1963) Guildo Horn söngvari og grallari
Byggingar og kennileiti
[breyta | breyta frumkóða]- Porta Nigra er gamalt rómverskt borgarhlið og stærsta rómverska bygging Þýskalands í dag. Hliðið er jafnframt einkennisbygging borgarinnar og eitt þekktasta mannvirki Þýskalands. Það er á heimsminjaskrá UNESCO.
- Leikvangur Rómverja í Trier var reistur um 100 e.Kr. og tók um 20 þúsund manns í sæti. Ysti hluti þess var jafnframt hluti af rómverska borgarmúrnum og þjónaði meira að segja sem borgarhlið, það er að segja þegar leikvangurinn var ekki í notkun. Á leikvanginum var boðið upp á skilmingaleika, bardaga við villidýr og aftökur. Eftir fall Rómaveldis notuðu germanir efnið sem námu og því er hringleikahúsið rústir einar í dag. Samt er það enn notað fyrir leiksýingar og tónleika. Það var sett á heimsminjaskrá UNESCO 1986.
- Kaiserthermen er heiti á gömlu baðhús Rómverja. Þau voru reist í kringum 300 e.Kr. af Konstantius Klórus keisara og syni hans Konstantínusar mikla. Byggingin var þó ekki kláruð þegar Konstantínus kaus Byzantion (Konstantínópel) sem höfuðborg sína. Því lét Valentiníanus keisari breyta byggingunni í herstöð. Á nýrri tímum varð byggingin hluti af miðaldamúrnum og þjónaði einnig sem borgarhlið. 1808 var múrinn rifinn niður og þá komu fleiri rústir í ljós. Í dag eru rústirnar opnar fyrir almenning, en opin svæði í þeim eru oft notuð fyrir uppákomur (sirkus og fleira). Baðhúsin voru sett á heimsminjaskrá UNESCO 1986.
- Mattíasarklaustrið er þekktur pílagrímsstaður. Þar hvílir postulinn Mattías síðan á tímum Rómverja. Þar er einnig að finna flís úr krossi Jesú.
- Péturskirkjan er dómkirkja borgarinnar og elsta dómkirkja Þýskalands. Í grafhvelfingunni hvíla hinir ýmsu erkibiskupar og kjörfurstar sem setið hafa í Trier. Þar er einnig að finna hina heilögu skikkju, en það er skikkjan sem Jesús var í. Dómkirkjan er á heimsminjaskrá UNESCO.
- Frúarkirkjan er við hliðina á dómkirkjunni. Hún er elsta gotneska kirkja Þýskalands (ásamt Elísabetarkirkjunni í Marburg). Hún var reist 1230-1260 af erkibiskupnum Theoderich von Wied og var efniviður úr eldri kirkju á staðnum að hluta notaður. Kirkjan skemmdist nokkuð í loftárásum seinna stríðsins. Skipt var um þak árið 2003. Kirkjan var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 1986.
- Konstantínusarkirkjan er feiknamikil forn höll sem Konstantínus keisari lét reisa á 4. öld. Salurinn að innan er sá stærsti í heimi sem varðveist hefur frá fornöld. Hann er 67 metra langur, 27 metra breiður og 33 metra hár. Konstantínus notaði hann sem hásætis- og móttökusal. Til beggja handa eru stórar marmarastyttur. 1856 var evangelísku kirkjunni gefin höllin og síðan þá hefur hún verið notuð sem kirkja. Hún skemmdist töluvert í loftárásum seinna stríðsins og var endurreist í upprunalegri mynd. Byggingin var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 1986.
- Rómverjabrúin (Römerbrücke) er elsta nústandandi brú Þýskalands. Hún var smíðuð 144-152 e.Kr. af Rómverjum sem þá voru búnir að reisa borgina Trier. Brúargólfið var endurnýjað 1307-1354 og er 14 metrum yfir vatnsborðið, þannig að prammar og lágreist skip geta siglt í gegn. 1689 sprengdu Frakkar brúna og fóru viðgerðir ekki fram fyrr en 1716-18. Sitthvoru megin við brúna voru tvö gríðarstór hlið. Þau voru rifin niður 1806 (af Frökkum) og 1869 (af Prússum). 1931 var brúin breikkuð. Í mars 1945 óku bandamenn yfir brúna og hertóku borgina en brú þessi var ein örfárra brúa vestast í Þýskalandi sem nasistar sprengdu ekki upp í stríðslok.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 259.