Viðskipti
Viðskipti eða verslun í sinni einföldustu mynd felast í því að ákveðinn aðili skiptir við annan aðila á vörum eða þjónustu og öðrum verðmætum. Greiðsla er oftast framkvæmd með peningum eða öðrum greiðslumiðli, en getur líka verið í formi vöruskipta. Fyrir hagfræðiútreikninga er viðskiptum oft skipt í vöruviðskipti annars vegar og þjónustuviðskipti hins vegar. Markaður er kerfi fyrir regluleg viðskipti margra aðila.
Í skilningi nútímahagfræði eru viðskipti afleiðing af verkaskiptingu þar sem einstaklingar og hópar geta sérhæft sig í ákveðinni tegund framleiðslu, en fengið aðra hluti sem þá vanhagar um með verslun við aðra. Ákveðin landsvæði geta þannig haft hlutfallslega yfirburði til að framleiða tilteknar vörur eða þjónustu, sem skortur er á annars staðar. Í vissum tilvikum getur hentað að koma upp fjöldaframleiðslu í einu landi og selja vörurnar á markaðsverði í öðru landi, báðum löndum til hagsbóta. Viðskipti og markaðir geta líka sérhæft sig í kringum ákveðnar vörutegundir, eins og kryddverslunin og kornverslunin sem léku mikilvægt hlutverk við þróun hnattrænna alþjóðaviðskipta. Sögulega séð hefur frjáls verslun gengið misvel í gegnum tíðina. Skattar, tollar og ýmsar viðskiptatakmarkanir hafa tíðkast frá forsögulegum tíma.
Smásala er verslun með vörur í litlu magni til neytenda, frá föstum stað, eins og búð, með netverslun eða póstverslun. Heildsala er sala vöru eða þjónustu til annarra fyrirtækja, smásala, iðnfyritækja, eða annarra heildsala.
Viðskipti eru viðfangsefni viðskiptafræðinnar og hagfræðinnar.