Fara í innihald

Gera

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gera
Skjaldarmerki Gera
Staðsetning Gera
SambandslandÞýringaland
Flatarmál
 • Samtals151,93 km2
Hæð yfir sjávarmáli
194 m
Mannfjöldi
 • Samtals93.000 (2.019)
 • Þéttleiki625/km2
Vefsíðawww.gera.de

Gera er þriðja stærsta borgin í þýska sambandslandinu Þýringalandi (Thüringen) og er með 93 þúsund íbúa (2019).

Miðborg Gera. Myndin er tekin úr ráðhústurninum.

Gera er austasta stórborgin í Þýskalandi og liggur aðeins steinsnar fyrir vestan landamerkin að Saxlandi. Næstu borgir eru Jena til vesturs (30 km), Chemnitz til austurs (40 km) og Leipzig til norðurs (50 km).

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki borgarinnar er gyllt ljón á svörtum grunni, en ljónið er merki Plauen sem landgreifarnir frá Weida tóku yfir. Hann á uppruna sinn á 14. öld. Skjöldurinn sjálfur er á ská. Fyrir ofan er gylltur hjálmur með skrauti og blævængju ofan á. Síðustu breytingar á þessu skjaldarmerki voru gerðar 1995.

Gera heitir eftir samnefndri á og hefur ávallt heiti þessu nafni. Heitið er dregið af forngermönsku orðunum ger og aha, sem merkir spjótslaga fljót. Ger merkir spjót (sbr. geir á íslensku), aha merkir á.[1]

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]
Leifar gamla borgarmúrsins

995 Heitið Gera kemur fyrst við skjöl, er Otto III keisari gefur biskupnum frá Naumburg svæðið. Aðeins fjórum árum síðar gefur Otto keisari systur sinni, Aðalheiði abbadísi í Quedlinburg, svæðið. Bærinn Gera var hins vegar lítill og kom ekkert við sögu næstu aldir. 1209 var landgreifunum frá Weida veittur yfirráð yfir bæinn. Eftir það tók hann að dafna og 1237 kom fram í skjali að Gera sé þegar komin með borgarréttindi. Nú til dags er árið 1237 tekið sem stofnár borgarinnar. 1358 erfði markgreifinn frá Meissen borgina.

Siðaskipti og stríð

[breyta | breyta frumkóða]

1533 urðu siðaskiptin í borginni, þrátt fyrir alla mótstöðu markgreifans frá Meissen. Í kjölfarið fylgdi trúarstríðið mikla (Schmalkaldischer Krieg). Markgreifinn frá Meissen, í sameiningu við kjörfurstann í Saxlandi, gáfu þá borgina Gera til Bæheims . Konungurinn í Bæheimi hafði þó engin bein áhrif á borgarbúa. Þrátt fyrir það var Gera formlega bæheimsk allt til stofnunar Saxlands sem konungsríkis 1806. Í 30 ára stríðinu var til þess að gera rólegt í Gera. En 1639 kom sænskur skæruliðaflokkur til borgarinnar og lagði eld að henni. Þriðjungur hennar brann niður. 1686 varð hins vegar versta eyðilegging í sögu borgarinnar, er eldur læsti sig óvart í húsi einu. Hann breiddist hratt út og áður en yfir lauk voru tveir þriðju hlutar hennar brunnir niður til kaldra kola. Enn einn stórbruninn átti sér stað 1780 en þá brann nær gjörvöll miðborgin niður.

Nýrri tímar

[breyta | breyta frumkóða]
Gröf ókunnugs fanga úr dauðagöngunni

1806 var konungsríkið Saxland stofnað og varð Gera hluti af því. 11. október á því ári var Napoleon í Gera til að hvíla sig. 13. október lagði hann af stað úr borginni og barðist sama dag í orrustunni við Jena, sem hann sigraði í. Eftir að Napoleonsstríðunum lauk fór iðnbyltingin í gang í Gera. Fyrsta gufuvélin var tekin í notkun þar 1833. Árið 1859 var komið á járnbrautartengingu. Aðalatvinnuvegurinn var þó vefnaður. 1892 fékk Gera rafmagnssporvagna, næstfyrst allra þýskra borga. Eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri varð Gera til skamms tíma höfuðborg fríríkisins Reuss, þar til fríríkið Þýringaland var stofnað 1920. Árið 1925 sótti Adolf Hitler borgina heim og hélt þar ræður. Í aðdraganda að heimstyrjöldinni síðari voru 3.000 stríðsfangar úr nýherteknum löndum (Bæheimi, Austurríki) neyddir til að vinna í verksmiðjum í borginni fyrir hervæðinguna. Auk þess ýmsir þýskir stjórnarandstæðingar, einnig konur og börn. Gera varð fyrir miklum loftárásum í stríðinu. Þær verstu urðu 6. apríl 1945. Viku seinna, 13. apríl, komu fangar úr Buchenwald vinnubúðunum við í Gera á dauðagöngu sinni. 8 manns voru skotnir til bana þar áður en gangan hélt áfram. Daginn eftir hertóku Bandaríkjamenn borgina eftir að skipst hafði verið á skotum í örstutta stund. 2. júlí var borgin eftirlátin Sovétmönnum, enda á hernámssvæði þeirra. Gera var því í Austur-Þýskalandi til sameingar Þýskalands 1990.

Viðburðir

[breyta | breyta frumkóða]
  • Goldener Spatz (Gullni spörinn) er heiti á kvikmyndahátíð fyrir börn í borginni. Hátíðin var sett á laggirnar 1977 en síðan 2003 halda Gera og Erfurt hátíðina sameiginlega. Veitt eru verðlaun fyrir myndir, leikara og ýmsa aðra hluti.
  • Flammernde Sterne (Logandi stjörnur) er heiti á flugeldahátíð í Gera. Hún hefur verið haldin síðan 2003. Auk flugelda eru aðrir gjörningar í gangi, til dæmis loftbelgjaflug. Tugir þúsunda sækja þessa hátíð heim árlega.
  • Rokk fyrir Þýskaland (Rock für Deutschland) er heiti á rokkhátíð nýnasista í borginni, enda er mikil hefð fyrir nýnasisma í Gera. Á hátíðinni troða mýmargar hægrisinnaðar rokkhljómsveitir upp. Árið 2009 sóttu 5.000 gestir tónleikana heim.

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
Ráðhúsið í Gera
  • Ráðhúsið í Gera samanstendur af nokkrum sambyggðum húsum. Þau voru reist 1573-75 í endurreisnarstíl. Ráðhúsið skemmdist talsvert í borgarbrunanum 1780 og var endurreist 1783-84. Árið 1793 var nýrri álmu bætt við. Ráðhúsið skartar ægifagurt inngangshlið. 1973 var smáleikhúsið Fettnäppchen opnað í húsinu.
  • Salvatorkirkjan er lútersk kirkja í miðborginni. Hún var reist 1717-20 eftir að gamla kirkjan brann í borgarbrunanum 1686. Turninn var hins vegar ekki reistur fyrr en 1775-78. Aðeins tveimur árum eftir vígslu hans, 1780, brann kirkjan í borgarbrunanum mikla. Hún var endurreist 1781-83 og er síðan þá eina kirkjan í miðborginni. Hinar brunnu og voru rifnar. 1898 voru nokkur hús fyrir framan kirkjuna rifin og hinar miklu tröppur lagðar þar í staðinn.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 111.