Fara í innihald

Heyr, himna smiður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Heyr, himna smiður er sálmur eftir Kolbein Tumason, oftast talinn ortur rétt fyrir Víðinesbardaga haustið 1208, þar sem Kolbeinn féll, en þó kann að vera að hann sé ortur eitthvað fyrr. Þetta er elsti varðveitti sálmur Norðurlanda og er nú oftast sunginn við lag sem Þorkell Sigurbjörnsson tónskáld gerði við hann. Einnig er lag eftir Sigvalda Kaldalóns sem er sungið við þennan texta.

Sálmurinn er þrjú erindi, er enn í íslensku sálmabókinni og er oft sungin, ekki síst við jarðarfarir.

Kolbeinn var andstæðingur Guðmundar Arasonar biskups og klerka hans en var um leið mikill trúmaður og virðist hafa verið ágætlega menntaður. Texti sálmsins er hátíðlegur og skáldlegur en um leið tiltölulega auðskilinn nútímafólki þótt einstök orð og líkingar þurfi skýringa við.

Heyr, himna smiður,
hvers skáldið biður,
komi mjúk til mín
miskunnin þín.
Því heit eg á þig,
þú hefur skaptan mig,
ég er þrællinn þinn,
þú ert Drottinn minn.
Guð, heit eg á þig,
að græðir mig,
minnst, mildingur, mín,
mest þurfum þín.
Ryð þú, röðla gramur,
ríklyndur og framur,
hölds hverri sorg
úr hjartaborg.
Gæt, mildingur, mín,
mest þurfum þín
helzt hverja stund
á hölda grund.
Set, meyjar mögur,
máls efni fögur,
öll er hjálp af þér,
í hjarta mér.
- Kolbeinn Tumason

Tilurð lags Þorkels

[breyta | breyta frumkóða]

Þorkell Sigurbjörnsson tónskáld samdi lag við sálminn vorið 1972. Hann sat þá í nefnd með dr. Róberti Abraham Ottóssyni hljómsveitarstjóra og skólastjóra Tónlistarskóla Reykjavíkur. Þorkell sagði Róbert hafa orðið tíðrætt um sálm Kolbeins Tumasonar. „Það var orðið seinfært heim eftir þennan fund – upp Öskjuhlíðina – bílar að renna og spóla o.s.frv. Þá varð lagið til í mínum huga, (seinasta hendingin fyrst),“ sagði Þorkell. „Þegar ég komst svo heim í Kópavog, var ekkert annað eftir en að hripa þessar nótur á blað. … Nokkrum dögum seinna sýndi ég dr. Róbert þessar nótur. Hann varð svo glaður, að hann hreinritaði með sinni listaskrift lagið og sendi til organista og söngstjóra.“[1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Sigrún Alda, fyrrum formaður Menningar- og framfarafélags kvenna í Skagafirði (17. júní 2022). „Heyr himna smiður – 50 ár frá lagasmíði- Aðsendar greinar“. Feykir - héraðsfréttablað Norðurlands vestra -Nýprent ehf. Sótt 1. ágúst 2022.