Fara í innihald

Leeuwarden

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Leeuwarden
Fáni
Skjaldarmerki
Staðsetning
HéraðFrísland
Flatarmál
 • Samtals84,11 km2
Mannfjöldi
 (1. janúar 2014)
 • Samtals108.085
 • Þéttleiki1.285/km2
Vefsíðawww.leeuwarden.nl

Leeuwarden (frísneska: Ljouwert) er höfuðborg héraðsins Frísland í Hollandi og er jafnframt. stærsta borg þess héraðs með 108 þúsund íbúa (1. janúar 2014). Leeuwarden er eina héraðshöfuðborg Hollands þar sem frísneska er opinbert tungumál, ásamt hollensku.

Lega og lýsing

[breyta | breyta frumkóða]

Leeuwarden liggur norðvestarlega í Hollandi, skammt sunnan strandlengjunnar að Vaðhafinu og rétt austan við Ijsselmeer. Næstu borgir eru Drachten til suðausturs (25 km), Heerenveen til suðurs (30 km) og Groningen til austurs (65 km). Leeuwarden er hjarta Fríslands og mesta þjónustuborg fyrir héraðið allt. Þar er til að mynda stærsti nautgripamarkaður Hollands.

Fáni og skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Fáni borgarinnar eru fjórar láréttar rendur, blá og gul til skiptis. Litirnir eru borgarlitir Leeuwarden og koma þeir einnig fyrir í skjaldarmerkinu. Skjaldarmerkið sýnir gyllt ljón á bláum grunni. Ljónið er upprunnið annaðhvort frá greifunum af Hollandi eða biskupunum frá Utrecht en báðir áttu ítök í Fríslandi áður fyrr. Kórónan efst vísar til konungsríkisins Hollands.

Heitið Leeuwarden birtist fyrst snemma á 9. öld. Hins vegar eru skiptar skoðanir um uppruna þess. Warden er nafn yfir smáhæð með vatni í kringum, þar sem frísar reistu hús á þurru. En Leeu getur bæði merkt hlé (sbr. leeward á ensku = hlémegin) sem og ljón (sbr. Löwe eða Leu á þýsku).

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]
Borgarbúar fagna kanadískri hersveit sem frelsaði Leeuwarden úr höndum Þjóðverja 15. apríl 1945

Í upphafi myndaðist byggð á þremur hæðum sem stóðu upp úr firðinum Middelzee, sem gekk suður af Vaðhafinu, en er horfinn í dag. Á hverri hæð var lítið þorp og uxu þau saman á 14. og 15. öld. 1435 hlaut Leeuwarden borgarréttindi. Borgin var mikil verslunarmiðstöð við Middelzee fram á 15. öld en þá minnkaði fjörðurinn og lokaðist af framburði. Eftir það minnkaði vægi Leeuwarden talsvert og varð að landbúnaðarmiðstöð. Árið 1504 varð Leeuwarden að höfuðborg Fríslands, sem í stuttan tíma var sjálfstætt land. Borgin varð þó endanlega hollensk eftir sjálfstæðisstríð þeirra gegn Spánverjum. Í heimstyrjöldinni síðari hertóku nasistar borgina. Hún var frelsuð af kanadískri herdeild 15. apríl 1945.

Viðburðir

[breyta | breyta frumkóða]

Elfstedentocht er líklega eitt þekktasta skautahlaup heims. Það var áður þjóðaríþrótt fríslendinga og Hollendinga að skauta á milli ellefu borga í Fríslandi. Vegalengdin er 200 km og er byrjað og endað í Leeuwarden. Skautað er á frosnum síkjum og lækjum. Í dag getur keppnin ekki farið fram árlega sökum þess að síkin frjósa ekki öll ár eins og áður. Síðasta hlaupið fór fram 1997.

Domino Day er árleg tilraun til að bæta metið í að fella uppraðaða dómínósteina. Domino Day var haldið í Leeuwarden 1998 og svo árlega siðan 2002. Árið 2009 voru steinarnir orðnir 4,8 milljónir talsins og vógu samtals 33 tonn. Viðburðurinn er sjónvarpaður og hefur vakið mikla eftirtekt.

Maraþonhlaupið í Leeuwarden er þreytt árlega síðan 2007.

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]
Mata Hari er fædd og uppalin í Leeuwarden

(1876) Mata Hari danskona og njósnari

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
  • Oldehove er ókláraður klukkuturn og einkennismerki borgarinnar. Byrjað var að reisa hann 1529 eftir að borgarbúar kröfðust þess að eiga klukkuturn sem væri hærri en Martini-turninn í Groningen. En meðan á byggingunni stóð, byrjaði turninn að hallast og var verkinu hætt 1532. Árið 1595 var kirkjan sjálf rifin og eftir stóð hinn ókláraði turn. Tvær kirkjuklukkur eru í turninum, sem og tímaklukka að utan. Turninn er opinn almenningi.
  • De Waag gamalt verslunarhús þar sem selt var og vigtað. Enda merkir Waag vog. Húsið var reist í kringum 1590. Það er enn verslunarhús í dag.
  • Bónífatíusarkirkjan er kaþólsk kirkja í borginni. Hún var reist 1882-84 og þykir með merkari hollenskum kirkjum í nýgotneskum stíl. 1976 brotnaði spíran af í stormi.