Fara í innihald

Liaoning

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Landakort sem sýnir legu Liaoning hérað í norðausturhluta Kína.
Kort af legu Liaoning héraðs í Kína.

Liaoning (kínverska: 辽宁; rómönskun: Liáoníng), er strandhérað í norðausturhluta Alþýðulýðveldisins Kína. Það er staðsett við norðurströnd Gulahafs og er nyrsta strandhérað Kína. Það dregur nafn sitt frá Liao-fljóti sem rennur um miðju héraðsins. Héraðið var áður hluti af Mansjúríu. Íbúafjöldi árið 2010 var 43.7 milljónir. Héraðshöfuðborgin er Shenyang í austurhluta Liaoning.

Landfræðileg afmörkun

[breyta | breyta frumkóða]

Liaoning er þekkt á kínversku sem „Gullni þríhyrningurinn“ út frá lögun sinni og staðsetningu. Héraðið er að mestu á miðlægu láglendi, með héraðshöfuðborgina Shenyang í miðju, og fjallagörðum til austurs og vesturs. Lenging hálendis til suðurs myndar Liaodong-skagi. Fjögur helstu staðháttasvæði héraðsins eru: miðslétturnar; Liaodong-skagi, vesturhálendið og austurfjallasvæðið.

Héraðið afmarkast af Gulahafi (Kóreuflóa og Bóhaíhafi) í suðri, Norður-Kóreusku héruðum Norður-Pyongan og Chagang í suðaustri, Jilin til norðaustur, Hebei í suðvestri og Innri Mongólíu í norðvestri.

Yalu-fljót sem markar landamæri héraðsins við Norður- Kóreu, rennur í Kóreuflóa milli Dandong í Liaoning og Sinuiju í Norður-Kóreu.

Liao-fljót rennur um miðju héraðsins. Þaðan dregur héraðið Liaoning nafn sitt.

Héraðið hefur tilheyrt Kína frá fyrstu tíð. Nær allt núverandi hérað Liaoning var innan fyrsta Kínamúrsins sem byggður var á valdatíma Shihuangdi, fyrsta keisara Qin veldisins (221–210 f.Kr.). Umhverfið og hefðbundin kínversk siðmenning miðléttunnar í Liaoning teygði sig áfram inn á Norður-Kína sléttuna og til Shandong í suðri. Efnahagur byggði á framleiðslu kínverskra bænda á sléttunum; á jaðrinum byggðist hagkerfið á smalamennsku, skógrækt, fiskveiðum, námuvinnslu og búrekstri.

Pólitísk völd á svæðinu fóru þó oft til þjóða sem stóðu utan landbúnaðar, af mongólskum eða mansjú ættum. Khitan þjóðin réðst inn á svæðið á 10. öld e.Kr. og stofnaði Liao-veldið. Sama gerði Mansjúfólkið (Jurchen eða Manchu) sem stofnaði Jin-veldið á 12. öld.

Á tíma Mongólaveldisins (1206–1368) voru áhrif kínverska keisaraveldisins endurheimt yfir svæðinu og héldust tengsl svæðisins náin á tíma Mingveldisins (1368–1644).

Á tímum Tjingveldisins (1644–1912), sem átti uppruna sinn á svæði mansjú þjóðarbrotsins, voru opinberar tilraunir gerðar til að verja norðaustursvæðið gegn ágangi Kínverja, að undanskildu gamla kínverska landsvæðinu í Liao-árdalnum. Þessi stefna var þó smá saman yfirgefin, meðal annars vegna þrýstings um rússnesk áhrif í norðurhéruðum.

Undir lok 19. aldar og fram á 20. öld þrýsti tvennt á róttæka nýbreytni í Liaoning héraði. Annars vegar voru afskipti erlendra aðila - rússnesk og síðar japönsk. Hins vegar var stóraukinn fjöldi kínverskra innflytjenda. Þetta leiddi af sér mikinn hagvöxt. Á fyrri hluta 20. aldar fjölgaði íbúum héraðsins gríðarlega.

Á árunum 1896 til 1903 byggðu Rússar Suður- Mansjúríu járnbrautina sem tengdi höfn Dalian borgar við Changchun borg í Jilin héraði sem og Harbin í Heilongjiang héraði, og einnig við Trans-Siberian lestarkerfið. Eftir Stríð Rússlands og Japans 1904–05 (sem að miklu var í og við Liaoning) færðust rússnesk járnbrautar-, hafnar- og landhelgisréttindi til Japana. Frá þeim tíma styrkti Japan stöðugt ítök sín á efnahag Liaoning og Mansjúríu, að hluta til með harðstjórn en einnig með árangursríkri fjárfestingarstefnu og og efnahagslegri útþenslu.

Yfirtaka Japana á Shenyang borg árið 1931 var upphaf innrásar Japans í Mansjúríu. Við hertöku Mansjúríu árið 1932 stofnuðu Japanir leppríkið Mandsjúkó og settu Puyi fyrrum keisara Tjingveldisins yfir því. Allt til loka síðari heimsstyrjaldarinnar, miðaði stefna Japana að því að þróa auðlindir Liaoning héraðs til að styrkja Japan efnahagslega. Stóriðja var þar sérstaklega þróuð.

Shenyang borg var tekin yfir af kínverskum kommúnistum árið 1948. Iðnaðarmannvirki Liaoning höfðu orðið fyrir miklum stríðsskemmdum. Þá haldlögðu Sovétríkin birgðir og vélar í héraðinu. Ný ríkisstjórn Alþýðulýðveldisins setti síðan endurreisn norðaustur Kína í forgang.

Liaoning hérað nútímans var upphaflega stofnað árið 1907 sem Fengtian hérað, en var endurnefnt Liaoning árið 1929. Stjórn japanska leppríkisins Mandsjúkó tók aftur upp fyrra nafn en nafnið Liaoning var endurreist árið 1945 og enn árið 1954.

Meirihluti íbúa Liaoning er Han kínverskur. Fjölmennasti minnihlutahópurinn er af Mansjú þjóðarbrotinu. Keisaraætt Tjingveldisins (einnig nefnt Mansjúveldið) kom af Mansjú fólki í Mansjúríu. Mansjú (Manchu) þjóðarbrotið býr aðallega í austurhluta héraðsins og norður af Liaodong-skaga. Næst fjölmennasti minnihlutahópurinn eru Mongólar, sem búa við landamörk Innri Mongólíu í vestri. Fámennt kóreskt þjóðarbrot býr nálægt landamærunum við Kóreu.

Íbúafjöldi Liaoning héraðs árið 2010 var um 43.7 milljónir. Héraðshöfuðborgin Shenyang (hét áður Mukden), er í austurhluta Liaoning. Höfuðborgarbúar voru árið 2010 um 8.1 milljónir.

Allar stærri borgir héraðsins eru iðnaðarborgir. Sumar þeirra hafa vaxið gríðarlega frá á fimmta áratug síðustu aldar. Helstu borgirnar eru: Dalian borg með 6.7 milljónir íbúa; Anshan 3.6 milljónir; Jinzhou 3.1 milljónir; Chaoyang (3 milljónir); Tieling 2.7 milljónir; Huludao 2.6 milljónir; Dandong 2.4 milljónir; Yingkou 2.4 milljónir; Fushun 2.1 milljónir; Liaoyang 1.9 milljónir; Fuxin 1.8 milljónir; Benxi 1.7 milljónir; og Panjin með 1.4 milljónir íbúa.

Efnahagslegs er Liaoning lang sterkasta hérað norðaustur Kína. Það er eitt öflugasta héraðshagkerfi landsins og eitt helsta iðnaðarhéraðið. Ein ástæða mikillar þróunar í Liaoning er mikil fjármögnun, byggð bæði á fjárfestingum sem kínversk stjórnvöld hafa ráðist í síðan 1949, en einnig byggð á umfangsmiklum erlendum fjárfestingum á árunum milli 1896 og 1945, af Rússum en aðallega af Japönum.

  • Ensk vefsíða Encyclopaedia Britannica um Liaoning. Inniheldur ýmsar upplýsingar um héraðið t.d. sögu og markverða staði.
  • Kínversk vefsíða héraðsstjórnarinnar í Liaoning. Inniheldur ýmsar upplýsingar um héraðið t.d. landslag, skipulag og fréttir.