Fara í innihald

Otto von Habsburg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Otto von Habsburg
Otto von Habsburg árið 2006.
Skjaldarmerki Ottos von Habsburg sem riddara í Reglu gullna reyfisins
Fæddur20. nóvember 1912
Dáinn4. júlí 2011 (98 ára)
ÞjóðerniAusturrískur
FlokkurKristilega sósíalsambandið
MakiRegína af Sachsen-Meiningen (g. 1951; d. 2010)
Börn7
ForeldrarKarl 1. Austurríkiskeisari og Zita af Bourbon-Parma
Undirskrift

Otto von Habsburg (fullt nafn á þýsku: Franz Joseph Otto Robert Maria Anton Karl Max Heinrich Sixtus Xaver Felix Renatus Ludwig Gaetan Pius Ignatius, fullt nafn á ungversku: Ferenc József Ottó Robert Mária Anton Károly Max Heinrich Sixtus Xaver Felix Renatus Ludwig Gaetan Pius Ignác; 20. nóvember 1912 – 4. júlí 2011) var síðasti krónprins austurrísk-ungverska keisaradæmisins. Faðir hans, Karl, var síðasti keisari Austurríkis og síðasti konungur Ungverjalands.

Þar sem keisaradæmið var leyst upp þegar Otto var barn ólst hann að mestu upp í útlegð frá heimalandinu. Hann varð síðar virkur í evrópskum stjórnmálum og varð einn helsti forsvarsmaður hugmyndarinnar um sameinaða Evrópu. Hann sat á Evrópuþinginu frá 1979 til 1999 fyrir Kristilega sósíalsambandið, flokk íhaldsmanna í Bæjaralandi.

Otto von Habsburg fæddist þann 20. nóvember 1912 og var sonur Karls erkihertoga og Zitu af Bourbon-Parma. Faðir Ottos varð keisari Austurríkis og konungur Ungverjalands eftir andlát Frans Jósefs keisara árið 1916 og Otto varð þá krónprins austurrísk-ungverska keisaradæmisins. Undir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1918, þegar Otto var sex ára gamall, klofnaði Austurríki-Ungverjaland og Austurríki varð lýðveldi. Karl keisari varð að segja af sér og morguninn 24. mars 1918 voru keisarahjónin send ásamt börnum sínum frá Eckartsau-höllinni í lest um Vín til Genfar. Í apríl 1919 voru sett lög í Austurríki sem bönnuðu meðlimum Habsborgarættarinnar að stíga fæti á austurríska grundu nema þau héldu sig í hæfilegri fjarlægð frá keisaradæminu og lýstu sig trygga stuðningsmenn lýðræðisins.[1]

Karl lést í útlegðinni þremur árum síðar og því ól Zita Otto og systkini hans upp ein. Þau bjuggu fyrst á Spáni og síðan í Belgíu og Otto nam mannkynssögu, stjórnvísindi og lög við ýmsa háskóla í Evrópu.[1] Þegar nasistar innlimuðu Austurríki í Þýskaland árið 1938 hvatti Otto austurríska kanslarann Kurt Schuschnigg til að veita þeim mótspyrnu og bauðst til að taka við kanslaraembætti af honum þegar hann neitaði að gera það.[2]

Á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar reyndi Otto að tala máli Austurríkismanna við vestræna bandamenn. Þegar Þjóðverjar hernámu París árið 1940 flutti hann til Bandaríkjanna og bjó þar til stríðsloka.[2] Þegar þriðja ríki Hitlers leið undir lok við lok seinni heimsstyrjaldarinnar sendi Otto Harry S. Truman Bandaríkjaforseta erindi þar sem hann varaði Bandaríkjamenn við því að skipta sér af innanríkismálum Austurríkis og hvatti bandamenn til þess að einangra hernámssvæði sitt í landinu frá hernámssvæði Sovétmanna.[1]

Eftir stríðið reyndi Otto að flytja aftur til Austurríkis en var vísað þaðan. Hann bjó í Frakklandi, Spáni, Liechtenstein og Portúgal en settist loks að í Bæjaralandi árið 1954.[2] Þegar uppreisnin í Ungverjalandi braust út árið 1956 sendi Otto ungversku þjóðinni stuðningsávarp þar sem hann fagnaði mótþróa hennar og skrifaði undir hana sem „Otto, konungur Ungverjalands“.[1]

Árið 1961 skrifaði Otto undir yfirlýsingu þar sem hann afsalaði sér keisaratitli, erfðarétti og kröfum til einkaeigna gömlu keisarafjölskyldunnar. Þetta var í kjölfar harðsvíruga deilna í landinu um það hvort rétt væri að skila Habsborgurum gömlum eignum sem gerðar höfðu verið upptækar við hrun keisaradæmisins. Hann fékk loks leyfi til að heimsækja Austurríki árið 1966 en vinstrisinnar í landinu gagnrýndu komu hans harðlega og allt að 250.000 manns lögðu niður vinnu í mótmælaskyni. Áfram voru í gildi lög sem bönnuðu meðlimum Habsborgarættar að gegna æðsta embætti þjóðarinnar samkvæmt stjórnarskránni.[2]

Árið 1979 var Otto kjörinn á Evrópuþingið í fyrstu beinu kosningunum sem haldnar voru á það. Hann var kjörinn í þingsæti fyrir Vestur-Þýskaland sem frambjóðandi Kristilega sósíalsambandsins (CSU) í Bæjaralandi. Margir sósíaldemókratar og frjálslyndir gagnrýndu framboð Ottos en hann naut stuðnings Franz Josefs Strauss, leiðtoga CSU.[3] Otto var mikill stuðningsmaður evrópskrar samvinnu og frá stríðsárunum stýrði hann Paneuropa-hreyfingunni, sem beitti sér fyrir sameinaðri Evrópu.[2]

Otto sat á Evrópuþinginu fyrir CSU í tvo áratugi. Eftir lok kalda stríðsins varð Otto von Habsburg einn helsti talsmaður þess að fyrrum Austantjaldsríkjum yrði veitt aðild að Evrópusambandinu. Hann lést í Þýskalandi þann 4. júlí árið 2011.[4] Hann var borinn til grafar í Vín og margir stjórnmálaleiðtogar og aðalsfólk voru viðstödd útför hans.[5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Otto von Habsburg snýr aftur eftir 50 ára útlegð“. Alþýðublaðið. 19. maí 1969. bls. 20.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 Anna Bjarnadóttir (12. mars 1988). „Sameining Evrópu er helsta áhugamál mitt“. Morgunblaðið. bls. 32-33.
  3. Þórarinn Þórarinsson (27. maí 1979). „Ottó erkihertogi tekur sæti á þingi“. Tíminn. bls. 8.
  4. „Otto Habsburg látinn“. mbl.is. 4. júlí 2011. Sótt 28. ágúst 2023.
  5. „Otto Habsburg borinn til grafar“. mbl.is. 16. júlí 2011. Sótt 28. ágúst 2023.