Fara í innihald

Sidney Morgenbesser

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sidney Morgenbesser
Persónulegar upplýsingar
Fæddur22. september 1921
SvæðiVestræn heimspeki
TímabilHeimspeki 20. aldar
Skóli/hefðRökgreiningarheimspeki
Helstu viðfangsefnimálspeki, hugspeki, vísindaheimspeki

Sidney Morgenbesser (22. september 19211. ágúst 2004) var bandarískur heimspekingur og prófessor við Columbia-háskóla.

Morgenbesser fæddist í New York. Hann nam við City College of New York, Jewish Theological Seminary og University of Pennsylvania. Að námi loknu hóf hann kennslu við Swarthmore College og New School of Social Research en hóf svo kennslu við Columbia-háskóla árið 1953. Árið 1975 var hann gerður að John Dewey prófessor í heimspeki. Morgenbesser var ekki afkastamikill rithöfundur en var þekktur fyrir hnyttni sína og kímnigáfu.

Sögur og tilvitnanir

[breyta | breyta frumkóða]
  • Málspekingurinn J.L. Austin hélt því eitt sinn fram í fyrirlestri að enda þótt tvöföld neitun í ensku gæfi til kynna jákvæða merkingu væri ekki til tungumál þar sem tvöföld játun gæfi til kynna neikvæða merkingu. Morgenbesser svaraði með orðunum „Yeah, yeah.“ (Samkvæmt sumum heimildum mun hann hafa sagt „Yeah, right.“)
  • Morgenbesser var að koma út úr neðanjarðarlestarstöð í New York borg og setti upp pípu sína meðan hann gekk upp tröppurnar. Lögreglumaður sagði honum að það væri bannað að reykja í neðanjarðarlestinni. Morgenbesser benti á að hann væri að yfirgefa neðanjarðarlestarstöðina en væri ekki inni í lestinni og að hann hefði hvort sem er ekki kveikt í pípunni. Lögreglumaðurinn svaraði: „Ef ég leyfi þér það, þá yrði ég aðleyfa öllum að gera það.“ Prófessorinn svaraði á móti: „Hver heldurðu að þú sért, Kant?“" Orðið „Kant“ misskildist og lögreglumaðurinn hélt hann hafa sagt „cunt“ og Morgenbesser varð að útskýra málið á lögreglustöðinni.
  • Um sjálfstæði óviðkomandi valkosta: Sidney Morgenbesser ákveður að fá sér eftirrétt þegar hann hefur lokið við matinn. Þjónustustúlkan segir honum að hann hafi um tvennt að velja: eplaböku og bláberjaböku. Sidney pantar eplabökuna. Eftir örfáar mínútur kemur þjónustustúlkan aftur og segir að þau hafi einnig kirsuberjaböku en þá segir Morgenbesser: „Nú, þá ætla ég að fá bláberjabökuna.“
  • Þegar háskólanemar voru að mótmæla á 7. áratugnum var Morgenbesser laminn í höfuðið af lögreglumanni. Þegar hann var spurður hvort komið hefði verið fram við hann ósanngjarnlega og ranglátlega svaraði hann „Ekki ósanngjarnlega en ranglátlega. Lögreglumaðurinn lamdi mig ranglátlega í höfuðið en þar sem þeir lömdu líka alla hina ranglátlega í höfuðið var það ekki ósanngjarnt.“
  • Í svari til B.F. Skinners, „Ætli ég hafi skilið þig rétt? Telur þú að við ættum ekki að manngera fólk?“
  • „Moses gaf út eina bók. Hvað hefur hann gert síðan?“
  • „Ef P, hvers vegna þá ekki líka Q?“
  • „Verkhyggja ér ágæt í orði en virkar ekki í verki.“