Fara í innihald

Sumarólympíuleikarnir 1928

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
9. sumarólympíuleikarnir
Bær: Amsterdam, Hollandi
Þátttökulönd: 46
Þátttakendur: 2.883
(2.606 karlar, 277 konur)
Keppnir: 109 í 14 greinum
Hófust: 28. júlí 1928
Lauk: 12. ágúst 1928
Settir af: Hinriki prins
Ólympíuleikvangurinn í Amsterdam.

Sumarólympíuleikarnir 1928 voru haldnir í Amsterdam í Hollandi á tímabilinu 28. júlí til 12. ágúst. Leikarnir voru minni í sniðum en oft áður, en þóttu þó takast ágætlega. Þýskaland tók á ný þátt í Ólympíuleikum eftir nokkurra ára útlegð.

Aðdragandi og skipulagning

[breyta | breyta frumkóða]

Amsterdam hafði sóst eftir að halda Ólympíuleikana árin 1920 og 1924, en ekki fengið. Að þessu sinni hreppti borgin hins vegar hnossið eftir baráttu við Los Angeles.

Reistur var Ólympíuleikvangur í miðri borginni. Höfundur hans var arkitektinn Jan Wils, einn kunnasti boðberi nýtistefnunnar í hollenskri byggingarlist. Wils var meðal frumkvölða De Stijl-hreyfingarinnar ásamt myndlistarmanninum Piet Mondrian.

Helsta einkenni leikvangsins var hinn hái Maraþon-turn, en á toppi hans logaði Ólympíueldurinn meðan á leikunum stóð. Á turninum héngu jafnframt voldugir hátalarar til að bera áhorfendum úrslit og fréttir af gangi mála. Var það nýjung á íþróttavöllum.

Keppnisgreinar

[breyta | breyta frumkóða]

Keppt var í 109 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.

Einstakir afreksmenn

[breyta | breyta frumkóða]
Lina Radke (t.h.) og Kinue Hitomi (t.v.) hlutu gull og silfurverðlaunin í umdeildu 800 metra hlaupi kvenna.

Yfirburðir Finna í langhlaupum voru rækilega staðfestir á leikunum. Finnsku hlaupararnir sigruðu í 1.500, 5.000 og 10.000 metra hlaupunum og unnu þrefalt í 3000 metra hindrunarhlaupi. Paavo Nurmi vann sín níundu Ólympíugullverðlaun á ferlinum í 10.000 metra hlaupinu.

Konur tóku í fyrsta sinn þátt í frjálsíþróttakeppni Ólympíuleikanna. Lengsta hlaupagreinin í kvennaflokki var 800 metra hlaup sem Þjóðverjinn Lina Radke vann. Hlaupið var við erfiðar aðstæður og sumir keppendanna, sem voru í misgóðri æfingu, örmögnuðust á leiðinni. Það varð til þess að greinin var tekin af dagskrá Ólympíuleikanna til ársins 1960 og hafði hlaupið skaðleg áhrif á framgöngu kvennaíþrótta á leikunum.

Bandaríski táningurinn Betty Robinson sigraði í 100 metra hlaupi kvenna. Hún var sextán ára gömul og hafði einungis keppt þrisvar í greininni áður en til Amsterdam var komið.

Indverska liðið hafði mikla yfirburði í hokkíkeppninni 1928.

Mikio Oda frá Japan sigraði í þrístökkskeppninni, með stökki upp á 15,21 metra. Hann varð þar með fyrsti Asíubúinn til að sigra í einstaklingskeppni á Ólympíuleikum.

Bandaríkjamaðurinn Johnny Weissmuller vann til tvennra gullverðlauna í sundi, til viðbótar við gullin sín þrjú frá leikunum 1924. Hann varð síðar heimsfrægur á hvíta tjaldinu í hlutverki Tarzans apabróður.

Lið Indlands sigraði í hokkíkeppni leikanna. Besti leikmaður þeirra var Dhyan Chand, einn kunnasti hokkíleikmaður fyrr og síðar. Hann skoraði 14 af 29 mörkum liðsins í keppninni. Indverjar fengu ekkert mark á sig í leikjunum fimm, sem er fágætt í hokkí.

Knattspyrnukeppni ÓL 1928

[breyta | breyta frumkóða]
Fyrirliðar Úrúgvæ og Argentínu stilla sér upp ásamt dómara og línuvörðum fyrir úrslitaleik Ólympíukeppninnar 1928.

Líkt og í París fjórum árum fyrr, var litið á knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna sem óopinbera heimsmeistarakeppni í íþróttinni. Sautján lið tóku þátt í keppninni, þar af þrjú frá Suður-Ameríku: Chile, Argentína og Úrúgvæ. Voru síðarnefndu tvö liðin talin sigurstranglegust ásamt Ítölum, sterkasta evrópska liðinu.

Þessar þrjár þjóðir reyndust í sérflokki og komust fyrirhafnarlítið í undanúrslitin. Þar mættust Úrúgvæ og Ítalía í hörkuleik sem Suður-Ameríkumennirnir unnu með þremur mörkum gegn tveimur. Úrúgvæ og Argentína tókust því á í draumaúrslitaleik knattspyrnuáhugamanna á troðfullum Ólympíuleikvanginum. Völlurinn tók um 28.000 áhorfendur, en skipuleggjendur Ólympíuleikanna fengu óskir um 250.000 miða á leikinn. Úrslitaleiknum lauk með 1:1 jafntefli og þurftu liðin því að mætast að nýju þremur dögum síðar. Þar hafði Úrúgvæ betur, 2:1 með sigurmarki frá Héctor Scarone.

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hélt þing sitt í Amsterdam samhliða Ólympíuleikunum. Þar var ákveðið að efna til heimsmeistarakeppni í knattspyrnu árið 1930. Árið 1929 var svo ákveðið að mótið skyldi haldið í Úrúgvæ og hafði Ólympíumeistaratitillinn mikið með þá ákvörðun að gera. Upp frá því varð HM í knattspyrnu aðalkeppni landsliða, en Ólympíukeppnin varð miklu lægra skrifuð. Kappliðin á Ólympíuleikunum voru lengi vel skipuð áhugamönnum, en síðar yngri leikmönnum.

Þátttaka Íslendinga á leikunum

[breyta | breyta frumkóða]

Íþróttasamband Íslands efndi til fjársöfnunar með sölu á íþróttamerkjum til að standa undir kostnaði við að senda fulltrúa á leikana í Amsterdam. Salan gekk illa og þegar fregnir bárust af því að ekki yrði unnt að koma Íslensku glímunni að sem sýningargrein, var hætt við þátttöku.

Verðlaunaskipting eftir löndum

[breyta | breyta frumkóða]
Forsíða upplýsingabæklings með dagskrá Ólympíuleikanna 1928.
Nr. Land Gull Silfur Brons Samtals
1 Fáni Bandaríkjana Bandaríkin 22 18 16 56
2 Fáni Þýskalands Þýskaland 10 7 14 31
3  Finnland 8 8 9 25
4  Svíþjóð 7 6 12 25
5 Ítalía 7 5 7 19
6  Sviss 7 4 4 15
7  Frakkland 6 10 5 21
8 Holland 6 9 4 19
9 Fáni Ungverjalands Ungverjaland 4 5 0 9
10 Kanada 4 4 7 15
11  Bretland 3 10 7 20
12 Argentína 3 3 1 7
13  Danmörk 3 1 2 6
14 Tékkóslóvakía 2 5 2 9
15  Japan 2 2 1 5
16 Eistland 2 1 2 5
17 Egyptaland 2 1 1 4
18 Fáni Austurríkis Austurríki 2 0 1 3
19 Fáni Ástralíu Ástralía 1 2 1 4
 Noregur 1 2 1 4
21 Pólland 1 1 3 5
Júgóslavía 1 1 3 5
23 Suður-Afríka 1 0 2 3
24 Indland 1 0 0 1
Írland 1 0 0 1
Nýja Sjáland 1 0 0 1
Spánn 1 0 0 1
Úrúgvæ 1 0 0 1
29  Belgía 0 1 2 3
30 Chile 0 1 0 1
Haiti 0 1 0 1
32 Filippseyjar 0 0 1 1
Portúgal 0 0 1 1
Alls 110 108 109 327