Andri Ísaksson
Andri Ísaksson (14. nóvember 1939 – 6. ágúst 2005) var íslenskur sálfræðingur, uppeldisfræðingur og friðarsinni.
Ævi og störf
[breyta | breyta frumkóða]Andri fæddist í Reykjavík, sonur Ísaks Jónssonar stofnanda Ísaksskóla og Sigrúnar Sigurjónsdóttur kennara. Að stúdentsprófi loknu lauk hann sálfræðinámi við Sorbonne-háskóla í París og MA-prófi í uppeldisfræði frá Berkeley í Kaliforníu, auk framhaldsnáms og rannsókna við evrópska háskóla.
Eftir að heim frá námi var komið starfaði Andri sem skólasálfræðingur og við skólarannsóknir á vegum Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur og menntamálaráðuneytis. Hann var skipaður prófessor í uppeldisfræði við Háskóla Íslands árið 1973 og gegndi því með hléum til ársins 1992. Þá réðst hann til starfa hjá UNESCO uns hann fór á eftirlaun. Eftir hann lágu fjölmargar rannsóknir á sviði sálfræði og uppeldisvísinda.
Hann tók virkan þátt í baráttu íslenskra friðarsinna og var fyrsti formaður miðnefndar Samtaka herstöðvaandstæðinga frá 1975-76 og stýrði þá m.a. skipulagningu stærstu Keflavíkurgöngunnar.