Fara í innihald

Parísarháskóli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Sorbonne)
Skjaldarmerki Parísarháskóla

Parísarháskóli (fr. Université de Paris) var franskur háskóli sem starfrækur var í París frá 1150 til 1970 (að undanskildum árunum 1793—1806 á franska byltingartímanum). Háskólinn var gjarnan kallaður Sorbonne-háskóli í daglegu tali eftir einni aðalbyggingu skólans, Sorbonne. Parísarháskóla var skipt upp í margar sjálfstæðar menntastofnanir árið 1970.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

Parísarháskóli á miðöldum

[breyta | breyta frumkóða]

Líkt og aðrir evrópskir miðaldaháskólar var Parísarháskóli hvorki stofnsettur með konunglegri tilskipan né páfabullu heldur þróaðist hann sjálfstætt upp úr söfnuði fræðimanna sem komu saman í kringum Notre Dame-dómkirkjuna ásamt kaupmönnum og handverkamönnum. Filippus 2. Frakkakonungur viðurkenndi menntastofnunina formlega sem universitas með tilskipun árið 1200.

Ásamt Háskólanum í Bologna varð Parísarháskólinn fyrirmynd annarra menntastofnana á miðöldum. Skólanum var skipt í fjórar deildir: listir, læknisfræði, lögfræði og guðfræði. Nemendunum var skipt í fjóra hópa eftir þjóðerni og móðurmáli: Í Frakkland, Normandí, Picardie og England. Nemendur frá Þýskalandi, Norðurlöndum og Austur-Evrópu voru flokkaðir með Englendingunum. Parísarháskóli varð brátt helsta menntasetur Evrópu og á 13. öld námu um 20.000 erlendir nemendur við skólann. Í kringum háskólann varð til sérstakt stúdentahverfi sem kallað varð latínuhverfið eftir tungumálinu sem nemendurnir og kennararnir töluðu sín á milli.

Collège de Sorbonne

[breyta | breyta frumkóða]
Kapellan í aðalbyggingu Sorbonne.

Háskólinn fékk viðurnefnið Sorbonne-háskóli eftir Collège de Sorbonne sem Robert de Sorbon lét stofna árið 1257 sem fræðasetur í guðfræði.

Sorbonne varð brátt þekkt sem ein fremsta guðfræðistofnun Frakklands og kennararnir voru gjarnan spurðir álits um trúarleg álitaefni. Á þriðja áratugi 17. aldar lét Richelieu kardínáli gera upp Sorbonne-háskólann. Elstu standandi skólabyggingarnar í dag eru frá þeim tíma. Meðal annars lét Richelieu byggja kapellu fyrir skólann og var sjálfur grafinn þar eftir andlát sitt.

Náin tengsl Sorbonne við kirkjuna leiddu til þess að skólanum var lokað á tíma frönsku byltingarinnar. Napóleon lét enduropna skólann árið 1808 og sameinaði hann formlega við Parísarháskóla. Frá 1808 til 1885 var Sorbonne notað fyrir kennslu í guðfræðideild Parísarháskóla. Undir lok 19. aldar var öllum beinum tengslum skólans við kirkjuna slitið og skólinn varð sjálfstætt starfandi menntastofnun.

Aðrar námsdeildir

[breyta | breyta frumkóða]

Auk hins fræga Sorbonne-háskóla taldi Parísarháskóli til sín fjölda bygginga og stofnana. Sumar þeirra þjónuðu hagnýtum tilgangi eins og að sjá nemendunum fyrir fæði og húsnæði. Í skólanum voru átta eða níu deildir fyrir erlenda nemendur. Hin elsta var Collegium danicum, sem stofnuð var árið 1257. Á 13. og 14. öld voru þrjár deildir stofnaðar fyrir sænska nemendur; Collegium Upsaliense, Collegium Scarense og Collegium Lincopense. Deildirnar voru hver um sig ætluð fyrir stúdenta úr kirkjuskólunum við Uppsali, Skara og Linköping. Þýsku deildarinnar Collegium alemanicum var fyrst getið árið 1345, skoska deildin Collegium scoticum var stofnuð árið 1325 og deildin Collegium lombardicum var stofnuð á fjórða áratugi 14. aldar fyrir stúdenta frá Langbarðalandi. Námsdeildin Collegium constantinopolitanum var stofnuð á 13. öld til að stuðla að einingu kirkjudeilda austurs og vesturs. Þeirri deild var síðar breitt í franska menntastofnun, Collège de la Marche-Winville.

Seinni tíð

[breyta | breyta frumkóða]

Á tíma þýska hernámsins í seinni heimsstyrjöldinni 1940-1944 var háskólanum lokað. Skólanum var aftur lokað í maíuppþotunum í París árið 1968. Þann 3. maí 1968 brutust óeirðir út á háskólasvæðinu þegar lögreglumenn reyndu að stöðva stjórnmálaviðburð á skólalóðinni. Mótmælendurnir hertóku Sorbonne-bygginguna og notuðu hana sem bækistöð til að stýra óeirðum sem breiddust út um alla Parísarborg.[1] Þann 16. júní gerði lögreglan atlögu á háskólann og batt enda á óeirðirnar.

Stúdentaóeirðirnar leiddu til þess að Parísarháskóli var endurskipulagður og honum skipt í sjálfstæðar menntastofnanir.

Endurskipulagningin 1970–1971

[breyta | breyta frumkóða]

Árin 1970–1971 var Parísarháskóla skipt í 13 sjálfstæða háskóla. Þrír þeirra viðhalda Sorbonne-viðurnefninu: Université Panthéon-Sorbonne (Université Paris I), Université Sorbonne-Nouvelle (Université Paris III) og Université Paris-Sorbonne (Université Paris IV). Tveir af háskólunum, Université Paris-Sorbonne og Université Pierre-et-Marie-Curie (Université Paris VI), sameinuðust þann 1. janúar 2018 í nýjan Sorbonne-háskóla.[2]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Einar Már Jónsson (15. júní 1968). „Bylting í háskólanum“. Þjóðviljinn. bls. 4-5; 7.
  2. Décret n° 2017-596 du 21 avril 2017 portant création de l'université Sorbonne Université, Journal officiel de la République française, nr. 0096, 23. apríl 2017.