Rolandstyttan
Rolandstyttan er á aðaltorgi borgarinnar Bremen. Rolandstyttur eru víða í þýskum borgum og eru táknrænar fyrir borgarfrelsi áður fyrr í þýska ríkinu. Saman með ráðhúsinu er Rolandstyttan í Bremen helsta kennileiti borgarinnar og er á heimsminjaskrá UNESCO.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Borgin Bremen átti sér snemma í sögunni sinn fyrsta Roland. Hann var gerður úr viði og var reistur til marks um það að Bremen væri fríborg í þýska ríkinu, þ.e. lyti ekki lengur valdi biskupanna þar í borg. Nóttina 28.-29. maí 1366 stóð erkibiskupinn Albert II í deilum við borgarbúa og safnaði að sér herflokki. Hermennirnir tók sig til og brenndu Rolandstyttuna, þar sem hann var til tákns um frelsi borgarbúa frá yfirráðum biskupsstólnum þar. 1404 var núverandi Rolandstytta sett upp og var hún gerð úr kalksteini. Hún hélt á skildi með tvíhöfða erni. Örninn táknar þýska ríkið, en sé hann tvíhöfða þá er hér um aðra yfirstjórn að ræða, þ.e. fríborgin í þessu tilfelli. Styttan sjálf er 5,47 m á hæð. Hún stendur á 60 cm háum stalli og yfir henni er lítið þak. Alls er styttan því 10,21 metri á hæð. Upphaflega var styttan lituð. Á 18. öld var hún hins vegar máluð grá, en á síðustu öld þótti viðeigandi að leyfa náttúrulega steininum að njóta sín án litar. Þegar Napoleon hertók Bremen 1811 ákvað hann að flytja styttuna til Parísar. En Brimarbúum tókst að fá hann til að hætta við þær áætlanir og var hún því kyrr. 1939 fékk Rolandstyttan nýtt höfuð. Það gamla er til sýnis í Focke-safninu í Bremen. Sama ár var gerð sprengjuvirki í kringum styttuna til að verja hana gegn sprengjuregni heimstyrjaldarinnar síðari.
Þjóðsaga
[breyta | breyta frumkóða]Þjóðsagan segir að svo lengi sem Roland stendur uppi og vakir yfir borginni muni hún vera frjáls. Af þessum sökum er til varastytta í ráðhúskjallaranum sem hægt er að setja upp í flýti ef núverandi stytta skyldi detta um koll eða skemmast af einhverjum völdum. Roland er látin horfa til dómkirkjunnar til tákns um frelsið frá biskupsdæminu er borgarbúum hlotnaðist af Friðriki I keisara.
Eftirmyndir
[breyta | breyta frumkóða]- Í kirkjunni Church of Zion í Brooklyn í New York er 1,5 metra há Rolandstytta sem er hluti af predikunarstólnum. Styttan var gjöf frá Bremen árið 1890 til Brimarbúa sem flutt höfðu út til Vesturheims.
- Brasilíska borgin Rolȃndia var stofnuð af þýskum útflytjendum 1932. Árið 1957 gáfu Brimarbúar borginni Rolandstyttu að gjöf sem þó er örlitlu minni en aðalstyttan í Bremen.
- Bremen gaf Quito, höfuðborg Ekvador, litla afsteypu af Rolandstyttunni af tilefni 445 ára afmæli borgarinnar Quito.
- Atsuo Nishi lét gera Rolandstyttu í réttri stærð fyrir Obihiro-fjölskyldugarðinn á Hokkaido í Japan. Hún stendur þar í þýsku ævintýraveröldinni ásamt öðrum þýskum ævintýrapersónum.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Bremer Roland“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt í desember 2009.